Fasteignaeigendur geta nýtt séreignarsparnað skattfrjálst við fasteignakaup eða til að borga inn á lán.
Bæði er hægt að
fá uppsöfnuð iðgjöld úr séreignarsjóði greidd á bankareikning.
láta framtíðargreiðslur vegna séreignarsparnaðar greiðast sjálfkrafa inn á íbúðarlán.
Íbúðin þarf að vera keypt til eigin nota og umsækjandi að vera með skráð lögheimili í íbúðinni. Lánið sem greiða á inn á verður að vera með veði í fasteign.
Fyrsta íbúð: Til er sambærilegt úrræði fyrir kaup á fyrstu íbúð, sem aðrar reglur gilda um.
Almennt er séreignarsparnaður (viðbótarlífeyrissparnaður) ætlaður til að byggja upp eign til að nýta við starfslok. Þegar launþegi hefur virkjað séreignarsparnað er sjálfkrafa greitt viðbótariðgjald í séreignarsjóð við hverja útborgun launa og vinnuveitandi leggur að auki til viðbótarframlag.
Nýting séreignarsparnaðar
Heimilt er að nýta séreignarsparnað til að greiða aukalega inn á lán eða taka út við fasteignakaup þótt ekki sé komið að starfslokum og án þess að þurfa að greiða af því skatt.
Hámark er fyrir því hve mikið er heimilt að nýta
Fyrir hjón og sambúðarfólk er hámark 750.000 kr. á ári
Fyrir einstaklinga er hámark 500.000 kr. á ári
Sjá nánar um skilyrði úrræðisins neðar.
Uppsafnaður sparnaður greiddur út
Ef þú átt uppsafnaðan séreignarsparnað getur þú valið að fá hann að hluta (eða allan) greiddan til að nýta sem útborgun við íbúðarkaup.
Aðeins er hægt að nýta sparnað sem hefur verið greiddur meðan hvorki þú né maki hafið verið skráður eigandi fasteignar. Miðað er við tímabilið frá júlí 2014 og fram að kaupmánuði.
Ef þú hefur verið eigandi fasteignar í langan tíma er því mögulegt að þú hafir ekki heimild til að taka út uppsafnaða séreign.
Ráðstöfun framtíðarsparnaðar inn á lán
Þú getur líka valið að semja um að viðbótariðgjöld sem annars myndu fara í þinn séreignarsjóð verði greidd sjálfkrafa inn á húsnæðislánið. Þar gildir einnig að hámarksgreiðslur eru 750.000 kr. á ári fyrir hjón og sambúðarfólk og 500.000 kr. fyrir einstaklinga.
Umsókn tekur aðeins til séreignar sem greidd er eftir að umsókn berst.
Báðar leiðir nýttar
Ef það hentar getur þú nýtt samspil beggja þessara leiða. Hægt er að sækja um útborgun séreignarsparnaðar sem greiddur hefur verið frá júlí 2014, ef þú eða maki hafið ekki verið skráðir eigendur fasteignar á því tímabili, og fram að kaupmánuði.
Í kjölfarið er hægt að sækja um að framtíðar sparnaður verði greiddur aukalega inn á lán.
Helstu skilyrði
Umsækjandi
þarf að vera með skráð lögheimili í íbúðinni
þarf að vera skráður skuldari íbúðarláns með veði í fasteign
Hjón og sambúðarfólk þurfa að sækja um hvert fyrir sig.
Til að ganga frá umsókn um ráðstöfun inn á lán þarf:
Númer og upplýsingar um íbúðalán og séreignarsjóð
Þinglýstan kaupsamning (ef um nýja fasteign er að ræða)
Sjö stafa fastanúmer eignar (ef um nýja fasteign er að ræða)
Til að ganga frá umsókn um útborgun:
Sjö stafa fastanúmer eignar
Þinglýstan kaupsamning (nema um nýbyggingu sé að ræða)
Númer og upplýsingar um íbúðalán og séreignarsjóð
Umsóknir um ráðstöfun séreignarsparnaðar
Breytingar
Ítarefni
Spurt og svarað um nýtingu séreignarsparnaðar til að borga inn á lán eða við fasteignakaup
Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
Lög nr. 90/2003 um tekjuskatt
Reglugerð nr. 991/2014 um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Þjónustuaðili
Skatturinn