Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Séreignarsparnaður nýttur við kaup á fyrstu íbúð

Umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar fyrir fyrstu íbúð

Við kaup eða byggingu á fyrstu íbúð er hægt að nýta séreignarsparnað skattfrjálst.

Bæði er hægt að

  • fá uppsöfnuð iðgjöld úr séreignarsjóði greidd á bankareikning.

  • láta framtíðargreiðslur vegna séreignarsparnaðar greiðast sjálfkrafa inn á íbúðarlán.

Hægt er að sækja um þegar kaupsamningur hefur verið þinglýstur, eða nýbygging verið skráð með fastanúmer.

Aðrir fasteignaeigendur: Til er sambærilegt úrræði fyrir aðra en fyrstu eigendur, sem aðrar reglur gilda um.

Almennt er séreignarsparnaður (viðbótarlífeyrissparnaður) ætlaður til að byggja upp eign til að nýta við starfslok. Þegar launþegi hefur virkjað séreignarsparnað er sjálfkrafa greitt viðbótariðgjald í séreignarsjóð við hverja útborgun launa og vinnuveitandi leggur að auki til viðbótarframlag.

Nýting séreignarsparnaðar

Við kaup á fyrstu íbúð er hægt að nýta séreignarsparnað þótt ekki sé komið að starfslokum og án þess að þurfa að greiða af því skatt.

Hver umsækjandi getur að hámarki nýtt 500.000 kr. sparnað á ári, í 10 samfelld ár.

Sjá nánar um skilyrði úrræðisins neðar.

Uppsafnaður sparnaður greiddur út

Ef þú átt uppsafnaðan séreignarsparnað getur þú valið að fá hann að hluta (eða allan) greiddan til að nýta sem útborgun við íbúðarkaupin.

Þú velur hversu langt aftur í tímann þú vilt að útgreiðslan nái, að hámarki 10 ár. Til dæmis gætir þú valið að nýta sparnað síðustu 2 ára, að hámarki 1.000.000 kr. (2 x 500.000 kr.).

Ráðstöfun framtíðarsparnaðar inn á lán

Þú getur líka valið að semja um að viðbótariðgjöld sem annars myndu fara í þinn séreignarsjóð verði greidd sjálfkrafa inn á húsnæðislánið. Þar gildir einnig að hámarksgreiðslur eru 500.000 kr. á ári.

Lánið sem greiða á inn á verður að vera með veði í fyrstu fasteign. Lánið má vera hvort heldur sem er verðtryggt eða óverðtryggt.

Ef sótt er um ráðstöfun viðbótariðgjalda inn á óverðtryggt lán má velja hvort séreignarsparnaður komi til lækkunar á höfuðstól eða afborgunum lánsins.

Heimilt er að greiða inn á afborganir óverðtryggðra lána öll iðgjöld á fyrstu tólf mánuðum ráðstöfunar en síðan lækkar hlutfallið á hverju ári yfir 10 ára tímabilið. Hjá þeim sem fengu séreignarsparnað greiddan út við kaup og/eða hafa verið að ráðstafa inn á veðlán er tekið tillit til þess tíma sem liðinn er af 10 ára tímabilinu.

Báðar leiðir nýttar

Ef það hentar getur þú nýtt samspil beggja þessara leiða.

Samanlagt getur tímabilið sem séreignarsparnaður er nýttur að hámarki staðið í 10 ár og upphæðin sem hver umsækjandi ráðstafar hæst orðið 5.000.000 kr.

Hafir þú til dæmis valið að fá greiddan út sparnað síðustu 2 ára getur þú að auki valið að greiða inn á lánið í 8 ár til viðbótar.

Tímalengd úrræðis

Að hámarki er hægt að nýta úrræðið í 10 samfelld ár. Upphafsdagur tímabilsins ræðst af því hvaða leið er valin:

  • Ef valið er að fá uppsöfnuð iðgjöld greidd, þá velur umsækjandi dagsetningu til að miða við (í dæminu hér fyrir ofan væri sú dagsetning tvö ár aftur í tímann).

  • Ef umsækjandi velur að einungis ráðstafa framtíðarsparnaði inn á lán, þá er miðað við þann mánuð sem umsókn er send inn.

Þegar báðar leiðir eru nýttar hefst tímabilið á þeirri dagsetningu sem valin er fyrir greiðslu uppsafnaðra iðgjalda. Yfirfærsla milli leiðanna tveggja verður í þeim mánuði sem kaupsamingur er undirritaður.

Helstu skilyrði

Umsækjandi

  • má ekki hafa átt íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár (sjá undanþágur neðar)

  • þarf að vera þinglýstur eigandi að minnst 30% eignarhluta í íbúðinni

  • þarf að vera skráður skuldari íbúðarláns með veði í fyrstu íbúð

  • þarf að sækja um innan 12 mánaða frá því að kaupsamingur er undirritaður eða nýbygging er skráð á byggingarstig 2

Hjón og sambúðarfólk þurfa að sækja um hvert fyrir sig.

Til að ganga frá umsókn þarf:

  • Þinglýstan kaupsamning (nema um nýbyggingu sé að ræða).

  • Sjö stafa fastanúmer eignar.

  • Númer og upplýsingar um íbúðalán og séreignarsjóð.

Breytingar

Ítarefni

Umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar fyrir fyrstu íbúð

Þjónustuaðili

Skatt­urinn