Séreignarsparnaður nýttur við kaup á fyrstu íbúð
Leiðbeiningar með umsókn
Ef umsókn opnast ekki sjálfkrafa eftir innskráningu á þjónustuvef Skattsins þarf að velja Samskipti > Fyrsta íbúð > Umsókn.
Þegar umsókn er opnuð er fyrst beðið um heimild til að afla upplýsinga og gagna úr fasteignaskrá. Nauðsynlegt er að samþykkja það til að halda áfram.
Yfirfara persónuupplýsingar og velja fasteign
Fasteign er valin í fellilista eða smellt á „Skrá nýja eign“.
Skrá sjö stafa fastanúmer eignarinnar. Fastanúmer kemur fram á kaupsamningi og má fletta upp í fasteignaskrá (ekki þarf að skrá F með fasteignanúmeri)
Einnig þarf að skrá kaupdag og eignarhlut umsækjanda í fasteigninni
Þinglýstur kaupsamningur skal fylgja umsókninni nema þegar um nýbyggingu er að ræða.
Ef umsækjandi er að byggja fasteignina sjálfur velur hann nýbygging. Ef eignin var keypt fullkláruð eða fokheld þarf ekki að haka við nýbygging.
Val á leið
Hægt er að sækja um útborgun séreignarsparnaðar, mánaðarlega ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán eða bæði.
Sé sótt um útborgun séreignarsparnaðar þá er valið „Ég sæki um útborgun séreignarsparnaðar“.
Sé sótt um mánaðarlega ráðstöfun séreignarsparnaðar er valið „Ég sæki um ráðstöfun séreignarsparnaðar upp í lán“.
Sé áætlunin að sækja bæði um útborgun og ráðstöfun á sama tíma er fyrst sótt um útborgun og seinna í umsókninni óskað eftir ráðstöfun.
Sótt um útborgun
Ef valið er að taka út uppsafnaða séreign þarf að velja upphafsdag 10 ára tímabilsins. Þetta er yfirleitt sú dagsetning þegar umsækjandi byrjaði að greiða viðbótariðgjald. Aðeins er heimilt að taka út viðbótariðgjald sem safnast fyrir kaup. Valinn upphafsdagur þarf því að vera fyrir dagsetningu kaupsamningsins.
Einnig þarf að velja:
Hvort greiða eigi út eins mikið og heimilt er (ótakmörkuð nýting) eða hvort takmarka eigi útborgun við lægri fjárhæð (takmörkuð nýting).
Úr hvaða séreignarsjóði á að taka uppsafnaða fjárhæð og inn á hvaða bankareikning á að greiða uppsöfnuðu fjárhæðina inn á.
Hvort umsækjandi vilji sækja einnig um að greiða séreignarsparnað inn á lán.
Sótt um ráðstöfun inn á lán
Ef valið er að greiða mánaðarlega inn á lán er valið hvaða séreignarsjóði á að greiða úr.
Þá þarf að velja lánið sem greiða á inn á. Forskráð í fellilista á umsókn eru þau lán sem voru á síðasta skattframtali. Ef nýtt lán var tekið eða lánið af einhverjum ástæðum ekki í fellilista þarf að skrá lánið með því að smella á "Skrá nýtt lán".
Að skrá nýtt lán
Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram:
Lánveitandi (t.d. banki eða lífeyrissjóður)
Númer láns (má finna á skuldabréfi eða í heimabanka)
Tegund láns, hvort það sé verðtryggt eða óverðtryggt (má finna á skuldabréfi eða í heimabanka)
Ef lánið er óverðtryggt má velja um hvort greiðslurnar fari inn á höfuðstól lánsins eða inn á afborganir.
Yfirlit og staðfesting
Að lokum þarf að lesa yfir umsóknina. Ef umsóknin er rétt útfyllt þarf að haka við staðfestingu og senda umsókn. Móttökukvittun birtist þá á skjánum.

Þjónustuaðili
Skatturinn