Fara beint í efnið

Sanngirnisbætur vegna þeirra sem urðu fyrir illri meðferð á stofnunum fyrir fötluð börn

Í desember 2020 tóku gildi lög um greiðslu sanngirnisbóta til þeirra sem dvöldu á stofnunum fyrir fötluð börn á vegum hins opinbera fyrir 1.febrúar 1993 og sættu illri meðferð.

Lögin gilda um stofnanir aðrar en Kópavogshæli en þegar hafa verið greiddar bætur vegna þess.

Innköllun á bótakröfum verður auglýst í Lögbirtingarblaðinu og í útbreiddu dagblaði. Áætlað er að það verði í sumarlok 2021.

Skilyrði

Sanngirnisbætur eru greiddar til þeirra sem urðu fyrir varanlegum líkamlegum, sálrænum eða félagslegum skaða vegna illrar meðferðar meðan á vistun þeirra stóð. 

Það felur í sér

  • hvers kyns líkamleg valdbeiting gagnvart barni þar sem valdið er óþarfa sársauka

  • ógnandi, vanvirðandi eða niðurlægjandi athafnir gagnvart barni

  • athafnir sem misbjóða barni eða vanrækja á annan hátt uppeldi þess svo mjög að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé mikil hætta búin

Fjárhæðir

Fjárhæðir bóta skulu lögum samkvæmt taka mið af tímalengd vistunar, alvarleika illrar meðferðar og dómaframkvæmd í sambærilegum málum. 

Bætur til einstaklings skulu þó aldrei vera hærri en 6 milljónir að viðbættri vísitöluhækkun á launavísitölu frá gildistöku laga 47/2010. 

Umsjón með málaflokknum og ákvörðun bóta er hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra.

Umsóknarferli

Umsóknarfrestur

Senda skal inn kröfu um bætur til sýslumannsins á Norðurlandi eystra innan þriggja mánaða frá síðari birtingu áskorunar í Lögbirtingablaðinu.  

Það er skrifstofa embættis sýslumannsins á Norðurlandi eystra á Siglufirði sem fer með ákvörðun um sanngirnisbætur og umsjón málaflokksins. 

Senda má umsóknina til:

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra

Gránugötu 4-6 

580 Siglufirði 

Aðstoð við bótakrefjendur

Tengiliður vegna verkefnisins leiðbeinir þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna. Hann aðstoðar einnig fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér endurhæfingu, menntun og aðra þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á. 

Ráðið verður í stöðu tengiliðs á fyrri hluta árs 2021. 

Umsókn og fylgigögn

Eyðublað verður aðgengilegt á vefnum þegar innköllun bótakrafna verður gefin út. 

Á eyðublaðinu er hægt að setja fram kröfur með einföldum hætti. Greina þarf frá því hvar viðkomandi dvaldi og geta í stuttu máli þess harðræðis sem hann varð fyrir. Eyðublaðið er einfalt í sniðum og það þarf ekki sérþekkingu til að fylla það út. 

Á eyðublaðinu er gert ráð fyrir því að umsækjandi geti haft umboðsmann. Ef umboðsmaður sendir inn gögnin þarf hann að hafa skýrar heimildir til þess. 

Fylgigögn með umsókn

Ekki þarf sérstök fylgigögn með umsókn, en umsækjanda er heimilt að leggja fram þau gögn sem hann kýs.

Sáttaboð sýslumanns

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra tekur kröfurnar til meðferðar að umsóknartíma liðnum. Kröfum sem hann telur ekki á rökum reistar er hafnað með rökstuddu bréfi. Aðrir fá skriflegt og bindandi sáttaboð í pósti. 

Tjónþoli hefur 30 daga til að samþykkja eða hafna sáttaboðinu. Sé það ekki samþykkt innan þess frests telst því hafnað.

Kjósi hann að samþykkja boðið endursendir hann undirskrifað sáttaboð til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, ásamt áritun tveggja votta, eða tengiliðar.

Kærufrestur

Hafi kröfu tjónþola verið hafnað eða sætti hann sig ekki við sáttaboð sýslumanns getur hann eftir atvikum skotið málinu til úrskurðarnefndar. 

Í erindinu skal rökstyðja af hverju tjónþoli telji sig eiga ríkari rétt en niðurstaða sýslumanns segir til um. Hann getur óskað eftir leyfi til að skila inn greinargerð um málið. Tjónþoli má ráða sér lögmann til aðstoðar við að reka málið. Ríkissjóður greiðir kostnaðinn sem af því hlýst, að hámarki 250.000kr.

Nefndin getur farið fram á viðtal við tjónþola eða aðra einstaklinga vegna málsins. Einnig er henni heimilt að óska eftir umboði til að afla læknisfræðilegra gagna um heilsufar viðkomandi.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar eru þrír mánuðir frá móttöku sáttaboðs. 

Úrskurður nefndarinnar er endanlegur á sviði stjórnsýslu. Til að hnekkja úrskurði nefndarinnar þarf að höfða mál fyrir héraðsdómi. 

Greiðsla bóta

Bætur eru greiddar í einu lagi. Gjalddagi er 30 dögum eftir að sýslumanni berst skriflegt samþykki sáttaboðs.

Sanngirnisbætur eru skattfrjálsar og skerða ekki örorkubætur eða aðrar greiðslur úr almannatryggingum á útgreiðsluári.

Sanngirnisbætur má ekki skuldajafna móti kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana.

Erfðaréttur bóta

Ef tjónþoli gerir kröfu um bætur en deyr áður en krafa hans er tekin til meðferðar gilda ákvæði erfðalaga um kröfuna og bætur sem gætu komið í kjölfar hennar verða hluti af dánarbúinu. 

Ef tjónþoli deyr áður en krafa er sett fram geta börn hans sett fram kröfu. Ekki þarf að greiða erfðafjárskatt af sanngirnisbótum í þeim tilvikum.