Sakamál í héraðsdómi
Í sakamálum er skorið úr um sekt þess sem hefur verið ákærður fyrir refsivert afbrot og viðkomandi ákveðin viðeigandi refsing ef fundinn sekur.
Ákæruvaldið, eða handhafar þess, höfðar mál á hendur einstaklingum eða lögaðilum, það er, fyrirtækjum.
Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta héraðssaksóknari og lögreglustjórar, níu talsins, eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds.
Hvað þýðir fyrirkall?
Þetta þýðir að búið er að birta þér tilkynningu um að mæta fyrir dóm.
Þegar dómara hefur verið úthlutað sakamáli er fyrirkall gefið út þar sem ákærði er boðaður til þinghalds á tilgreindum tíma þar sem málið verður þingfest. Algengt er að lögregla sjái um að birta ákærðu fyrirköll. Í fyrirkalli er ákærða sagt að sækja dómþingið í ákveðnum dómsal og á ákveðnum tíma.
Hvað gerist ef ég mæti ekki fyrir dóm?
Þá má búast við að fjarvist þín verði skilin sem játning. Þá er málið dæmt eftir þeim gögnum sem liggja fyrir.
Ef ekki er mætt af hálfu ákærða, og hann hefur ekki boðað forföll, en honum hefur áður verið birt ákæra og brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sex mánaða fangelsi, upptöku eigna og sviptingu réttinda og dómari telur framlögð gögn nægileg til sakfellingar er til staðar heimild í lögum um meðferð sakamála til að leggja efnisdóm á mál þrátt fyrir að ákærði hafi ekki mætt. Um þessa heimild er kveðið á um í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Jafnframt er heimilt að leggja dóm á mál ef ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls og játað skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæður til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, enda verði ekki dæmd þyngri refsing en eins árs fangelsi.
Hafi ákærði ekki sótt þing við þær aðstæður sem lýst er hér að framan og mál verið dæmt að honum fjarstöddum getur hann innan fjögurra vikna frá því að dómur var birtur fyrir honum, eða dómur var kveðinn upp ef birtingar var ekki þörf, krafist þess að málið verði tekið upp að nýju fyrir héraðsdómi, enda berist beiðni hans um endurupptöku innan þess frests. Sé fresturinn liðinn verður mál ekki tekið upp á ný nema með ákvörðun endurupptökunefndar samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. XXXIV. kafla.
Nánari upplýsingar:
Ef ég kem fyrir dóm og játa, fæ ég vægari dóm?
Hegðun og atferli sakbornings í formi játningar getur orðið til refsilækkunar og algengt er að í dómum sé vísað til sé til þess að litið hafi verið til játningar ákærða við ákvörðun refsingar.
Þá er einnig ákvæði í lögum um að taka skuli til greina hvort að ákærði hafi veitt aðstoð eða upplýsingar sem hafi haft verulega þýðingu við að upplýsa brot hans, aðild annarra að brotinu eða önnur brot.
Ekki er þó hægt að ganga út frá því að skýlaus játning ákærða hafi ávallt í för með sér vægari refsingu heldur er játning eitt þeirra atriða sem litið er til við heildarmat ákvörðunar um viðurlög í sakamálum.
Hvernig fæ ég að vita hvaða dóm ég fékk ef ég kom ekki til dómsuppsögu?
Lögreglan sér um að birta dóma en svo getur þú einnig haft samband við dóminn.
Hvernig á ég að borga sekt sem ég er dæmd/dæmdur til að greiða?
Nokkuð algengt er að þeir sem ákærðir eru í sakamáli séu dæmdir til að greiða fjársekt.
Sýslumaðurinn sér um að innheimta sektir og sakarkostnað.
Þar er til dæmis að finna upplýsingar um hvaða úrræði notuð eru til að knýja á um greiðslu sekta, hvernig sækja á um greiðsludreifingu og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að menn eigi möguleika á því að afplána vararefsingu eða sinna samfélagsþjónustu í stað þess að greiða sekt.
Get ég sloppið við fangelsisvist og farið í samfélagsþjónustu?
Þeir aðilar sem dæmdir hafa verið í allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eiga þess kost að sækja um að fá að afplána refsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, uppfylli þeir öll skilyrði til þess. Í ákveðnum tilfellum er einnig hægt að sækja um að fá að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu. Minnst er hægt að afplána refsingu með samfélagsþjónustu í 40 klukkustundir en mest í 480 klukkustundir.
Sjá nánar
Flestir dómar í sakamálum eru birtir á netinu en þó með undantekningum.
Þegar aðili er dæmdur til að greiða sekt sem er lægri en áfrýjunarfjárhæð (þ.e. lægri en ein milljón krónur m.v. 2018), þá er dómur ekki birtur á heimasíðu dómstólanna. Þá eru ákvarðanir um sektir og vararefsingu (svonefndar viðurlagaákvarðanir) ekki heldur birtar.
Í dómum í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, svo sem um vitni. Almennt ríkir ekki nafnleynd um ákærða, sé hann sakfelldur í máli. Þó eru einnig undantekningar á þeirri reglu. Ef birting á nafni ákærða getur talist andstæð hagsmunum brotaþola eða ef ákærði var ekki orðinn 18 ára þegar hann framdi þau brot sem hann er ákærður fyrir. Nafnbirtingu skal aflétta samkvæmt sérstakri beiðni þar um þegar eitt ár er liðið frá birtingu dóms.
Tengt efni:
Þjónustuaðili
Héraðsdómstólar