Orðskýringar úr réttarkerfinu
A
Afbrot
Afbrot er hver sú háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem refsing liggur við samkvæmt þeim refsiheimildum sem gilda á hverjum tíma.
Á
Áfrýjun
Áfrýjun er þegar aðili dómsmáls leitar endurskoðunar á dómi um form eða efni máls með málskoti til æðri dómstóls, t.d. Landsréttar eða Hæstaréttar.
Ákæra
Ákæra er málshöfðun á hendur sakborningi í sakamáli, útgefin af handhafa ákæruvalds, þ.e. ákæranda. Þegar sakamál er höfðað er það gert með útgáfu skjals sem kallast ákæra.
Ákærufrestun
Með ákærufrestun er útgáfu ákæru frestað skilorðsbundið um tiltekinn tíma. Heimild fyrir beitingu þessa úrræðis er í 56. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála, og skilyrði fyrir beitingu þess er að aðili hafi játað brot sitt. Heimilt er að beita þessu úrræði ef brot er framið af einstaklingi á aldrinum 15-21 árs eða högum sakbornings er þannig háttað að umsjón eða aðrar ráðstafanir samkvæmt 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga megi teljast vænlegri til árangurs en refsingu enda sé brotið ekki þess eðlis að almannahagsmunir krefjist saksóknar.
Ákærufrestun er bundin því almenna skilyrði skv. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum. Frestun má einnig binda nánar tilgreindum skilyrðum sem talin eru upp í ákvæðinu. Mál aðila sem lokið er með ákærufrestun má taka upp að nýju ef rannsókn hefst hjá lögreglu gegn aðila sem sakborningi áður en skilorðstíma lýkur og þá út af nýju broti sem hann hefur framið á skilorðstímanum eða vegna brots sem hann framdi áður en tekin var ákvörðun um ákærufrestun. Einnig er heimilt að taka upp málið ef aðili rýfur í veigamiklum atriðum önnur skilyrði sem honum voru sett. Ákærufrestun skráist á sakaskrá, sjá nánar hér.
Ákæruvaldið
Ákæruvaldið er í höndum ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra, að undanskildum ríkislögreglustjóra. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og fer í samræmi við það með eftirlit og leiðsögn með héraðssaksóknara og lögreglustjórum.
Hlutverk ákæruvaldsins er einkum, að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem fremja afbrot verði beittir lögmæltum viðurlögum (fangelsisrefsing, sektir, réttindasvipting, upptaka eigna) eða að afgreiða sakamál með öðrum hætti.
Ákærði
Ákærði er sá sem er ákærður fyrir ætlað refsivert brot í sakamáli.
B
Brotaþoli
Með brotaþola er átt við þann einstakling sem brotið er gegn með refsiverðum verknaði. Brotaþoli getur þannig t.d. verið eigandi bifreiðar sem er skemmd eða maður sem verður fyrir líkamsárás.
Brotaþolar njóta ákveðinna réttinda við meðferð sakamála. Sem dæmi má nefna að brotaþoli getur átt rétt á því að honum sé skipaður réttargæslumaður sem gætir hagsmuna hans og veitir aðstoð í máli svo sem við að setja fram bótakröfu. Einnig getur brotaþoli átt rétt á bótum sem þolandi afbrota.
D
Dómur
Dómur er skrifleg niðurstaða dómstóls um efni tiltekins máls sem hefur að geyma forsendur og dómsorð. Dómur er jafnframt bindandi fyrir ákærða, ákæruvaldið og aðra um þau efnisatriði sem þar eru dæmd.
E
Einangrun
Þegar sakborningur er úrskurðaður í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar sakamáls þá er í vissum tilvikum heimilt að úrskurða viðkomandi í einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi.
F
Farbann
Með farbanni er ferðafrelsi sakbornings skert, oftast með þeim hætti að honum er bannað að fara af landi brott. Dómari getur úrskurðað sakborning í farbann í stað þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald.
G
Gæsluvarðhald
Gæsluvarðhald er tímabundin frelsissvipting sem lögregla getur beitt í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls á grundvelli dómsúrskurðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Gæsluvarðhald er ekki afplánun en kemur að yfirleitt til frádráttar fangelsisrefsingu ef viðkomandi er dæmdur til fangelsisrefsingar í kjölfar gæsluvarðhalds.
H
Haldlagning
Haldlagning er fólgin í því að maður er sviptur vörslum muna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Yfirleitt er markmið haldlagningar að upplýsa mál en þó er stundum gripið til þess að leggja hald á muni í refsivörsluskyni.
Húsleit
Með húsleit er gerð leit að mönnum eða munum í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum, skipum, loftförum, bifreiðum eða öðrum farartækjum hans í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á mununum sem hald skal leggja á. Meginreglan er sú að lögregla getur einungis framkvæmt húsleit á grundvelli dómsúrskurðar nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns. Leit er heimil án dómsúrskurðar á víðavangi og í húsakynnum eða farartækjum, sem eru opin almenningi eða hver og einn getur átölulaust gengið um.
K
Kæra
Með kæru getur verið átt við:
1. Tilkynning til lögreglu um að meintur refsiverður verknaður hafi verið framinn eða
2. Málskot til æðra stjórnvalds, stjórnsýslukæra. Til að mynda er hægt að kæra til ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að vísa frá kæru, hætta rannsókn, fella mál niður og falla frá saksókn innan eins mánaðar frá því að viðkomandi var tilkynnt um viðkomandi ákvörðun.
3. Málskot til Landsréttar og eftir atvikum Hæstaréttar á úrskurðum sem eru kveðnir upp undir rekstri máls auk annarra ákvarðana dómara. Má sem dæmi nefna að hægt er að kæra úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald til Landsréttar.
Kærandi
Kærandi er sá sem kærir t.d. dómsúrskurð til Landsréttar eða Hæstaréttar eða leggur fram kæru hjá lögreglu eða saksóknara.
Kynferðisbrot
Kynferðisbrot er samheiti hegningarlagabrota sem á einhvern hátt varða kynfrelsi manna. Meginmarkmið þeirra ákvæða sem varða kynferðisbrot er að vernda sjálfsákvörðunarrétt fólks varðandi kynlíf þess, frelsi og friðhelgi.
Kyrrsetning eigna
Lögregla getur krafist kyrrsetningar hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni verulega. Þetta getur lögregla gert til að tryggja greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Kyrrsetning fellur niður ef ákærði hefur verið sýknaður með endanlegum dómi af greiðslu sektar og sakarkostnaðar eða upptaka ávinnings hefur ekki verið dæmd. Sama á við ef saksókn hefur verið felld niður eða rannsókn leiðir ekki til saksóknar. Sakborningur á þá rétt á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að tryggja kyrrsetningu. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef sakborningur innir af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.
L
Líkamsleit og líkamsrannsókn
Líkamsrannsókn felst í skoðun eða rannsókn sem beinist að líkama manna og þá oftast að einstökum líkamshlutum þeirra. Má sem dæmi nefna að það telst líkamsrannsókn þegar blóð- og þvagsýni eða önnur lífsýni eru tekin úr mönnum. Líkamsrannsókn skal ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á.
Þegar rætt er um líkamsleit er átt við leit á manni í þeim tilgangi að leggja hald á muni sem hann kann að hafa á sér. Hér eiga einnig við þau tilvik þegar leitað er að utanaðkomandi munum, svo sem ávana- og fíkniefnum, sem ætlað er að menn feli innvortis, t.d. eftir að hafa gleypt þá. Líkamsleit skal ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á. Þó er líkamsleit heimil án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.
Lögreglustjórasáttir
Lögreglustjóri hefur almenna heimild til að ljúka máli, sem hann hefur ákæruvald um, með lögreglustjórasátt. Skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis er að viðurlög við broti fari ekki fram úr tímabundinni ökuréttarsviptingu eða verðmæti þess sem gera á upptækt eða fjárhæð sektar fari ekki fram úr nánar tiltekinni fjárhæð og að brotið sé tilgreint á skrá sem ríkissaksóknari gefur út.
M
Málshöfðun
Það að höfða mál fyrir dómi. Sakamál telst höfðað þegar ákæra er gefin út á hendur ákærða.
Ó
Óskilorðsbundinn dómur
Óskilorðsbundinn dómur er refsidómur þar sem ákærði er dæmdur til fangelsisrefsingar sem er ekki skilorðsbundinn, þ.e. hann þarf að sæta fangelsisvist.
R
Rannsókn sakamáls
Að meginstefnu er rannsókn sakamála í höndum lögreglu undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra og markmið rannsóknarinnar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar. Lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Þó getur lögregla vísað frá kæru um brot ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsókn muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.
Réttargæslumaður
Lögmaður sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal að setja fram bótakröfu í málinu ef um tjón er að ræða. Skylt er lögreglu að tilnefna réttargæslumann ef mál varðar kynferðisbrot og brotaþoli óskar þess. Þá er lögreglu skylt að tilnefna réttargæslumann ef mál varðar manndráp, líkamsmeiðingar eða brot gegn frjálsræði manna og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn og lögregla metur það svo að brotaþoli þurfi aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagmuna sinna í málinu. Þá skal ávallt tilnefna réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst.
Réttargæslumanni er til að mynda ætíð heimilt, á meðan á rannsókn stendur, að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola. Þá á réttargæslumaður rétt á að fá afrit af þeim málsgögnum sem varða þátt brotaþola auk þess sem að hann á rétt á því að vera viðstaddur öll þinghöld í málinu og tjá sig um bótakröfu brotaþola fyrir dómi auk þess sem honum er heimilt að tjá sig um réttarfarsatriði sem varða brotaþola sérstaklega.
Þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóð.
S
Sakamál
Í sakamálum er skorið úr því hvort menn hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi sem þeim er gefin að sök. Einnig er þeim sem sekir eru ákvörðuð viðeigandi viðurlög.
Sakarkostnaður
Til sakarkostnaðar teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar sakamáls og meðferðar þess. Lagt skal út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði.
Ef ákærði er sakfelldur fyrir það brot eða þau brot sem honum eru gefin að sök skal honum gert að greiða sakarkostnað. Ef ákærði er sýknaður af kröfu um refsingu eða önnur viðurlög og mál gegn honum fellur niður þá verður honum ekki gert að greiða sakarkostnað nema hann hafi orðið valdur að kostnaðinum með vísvitandi og ólögmætu framferði við rannsókn máls eða meðferð þess.
Sakavottorð
Ríkissaksóknari heldur sakaskrá fyrir landið allt þar sem skráð eru úrslit sakamála. Í sakaskrá eru færðar tilteknar upplýsingar um sakamál, t.d. dómar, viðurlagaákvarðanir, lögreglustjórasáttir og ákærufrestanir.
Sakavottorð innihalda upplýsingar um sakaferil einstaklings úr sakaskránni með ákveðnum takmörkunum. Óski einstaklingur eftir sakavottorði um sig sjálfan skal hann gera það skriflega í afgreiðslu sýslumanna.
Sakborningur
Sakborningur er sá sem er borinn sökum eða grunaður um refsiverða háttsemi. Bæði einstaklingar og lögaðilar geta talist vera sakborningar.
Saksóknari
Ákærendur eru ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar. Að auki, í umboði þeirra, vararíkissaksóknari, varahéraðssaksóknari, saksóknarar, aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfulltrúar, svo og löglærðir aðstoðarlögreglustjórar. Ákærendur hafa það hlutverk að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Ákærendur taka m.a. ákvörðun um saksókn, gefa út ákæru í sakamálum og annast flutning þeirra mála fyrir dómi.
Sektarboð
Sektarboð er þegar lögreglustjóri gefur sakborningi kost á að ljúka sakamáli með greiðslu sektar ef brot er smávægilegt.
Sektargerð
Sektargerð er þegar:
1. Dómari gerir ákærða sekt með samþykki hans. Ef ákærði sækir dómþing og játar þá háttsemi sem honum er gefin að sök þá má ákærandi gefa honum kost á að ljúka máli með því að gangast undir sekt. Ef ákærði fellst á slík málalok og dómari telur viðurlög hæfileg getur hann lokið málið með ákvörðun sinni um þau viðurlög.
2. Þegar stjórnvald, t.d. lögreglustjóri eða lögreglumaður eða yfirskattanefnd, gerir manni sekt án atbeina dómstóla. Skilyrði er að viðurlög við broti fari ekki fram úr sekt að tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð sem dómsmálaráðherra setur, sviptingu réttinda eða upptöku eigna.
Símahlustun
Símahlustun er ein þeirra aðgerða sem flokkast undir þvingunarráðstafanir og lögregla getur gripið til við rannsókn sakamála.
Úrræðinu eru settar þröngar skorður lögum samkvæmt og má sem dæmi nefna að það er fortakslaust skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis að fyrir liggi úrskurður dómara.
Skilorðsbundinn dómur
Skilorðsbundinn dómur er refsidómur þar sem ákvörðun refsingar eða fullnustu refsingar er frestað um tiltekinn tíma gegn því að sakborningur brjóti ekki af sér á þeim tíma.
Heimilt er að setja mönnum frekari skilyrði, svo sem að viðkomandi einstaklingur neyti ekki áfengis, annarra vímuefna o.fl.
Ú
Úrskurður
Úrskurður getur annað hvort verið:
1. Formleg ákvörðun stjórnvalds.
2. Formleg ákvörðun dómara um einstök atriði máls t.d. um meðferð þess, sem venjulega þarf að ráða til lykta undir rekstri málsins fram að dómtöku þess.
Hægt er að kæra tiltekna úrskurði héraðsdómara til Landsréttar.
Einnig er hægt að kæra tiltekna úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar, svo sem:
Úrskurði Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti,
Hvort dómari Landsréttar víki sæti í máli,
Réttarfarssekt fyrir Landsrétti,
Skyldu vitnis skv. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að svara spurningu.
V
Varðhald
Í almennri umræðu er ekki alltaf gerður greinarmunur á hugtökunum varðhaldi og gæsluvarðhaldi og er hugtakið varðhald oft notað jöfnum höndum yfir hugtakið gæsluvarðhald.
Hugtakið varðhald hefur ekki sjálfstæða þýðingu í gildandi lögum en hafði það í tíð eldri laga. Þegar almenn hegningarlög nr. 19/1940 voru sett var refsivist tvenns konar, þ.e. fangelsi og varðhald. Þeir sem gerst höfðu sekir um meiri háttar afbrot voru dæmdir til fangelsisvistar en þeir sem höfðu gerst sekir um smávægileg brot voru dæmdir í varðhald.
Varðhald var afnumið sem viðurlög við refsiverðri háttsemi með lögum nr. 82/1998. Í gildandi lögum eru refsitegundir tvenns konar, þ.e. fangelsi og fésektir.
Verjandi
Lögmaður sem er skipaður eða tilnefndur til að gæta hagsmuna sakbornings. Lögum samkvæmt er sakborningi áskilinn ríkur réttur til að fá sér skipaðan verjanda á ábyrgð ríkissjóðs og telst sá kostnaður til sakarkostnaðar.
Viðurlagaákvörðun
Ef ákærði sækir dómþing við þingfestingu máls og játar þá háttsemi sem honum er gefin að sök þá má ákærandi gefa honum kost á að ljúka máli með því að gangast undir sekt. Ef ákærði fellst á slík málalok og dómari telur viðurlög hæfileg getur hann lokið máli með ákvörðun sinni um þau viðurlög.
Vitni
Vitni er sá sem hefur orðið sjónarvottur að málsatvikum eða skynjað þau að öðru leyti að eigin raun og gefur skýrslu um atvik málsins fyrir dómi og/eða við rannsókn lögreglu, án þess þó að vera aðili málsins eða matsmaður. Sá sem hefur veitt lögreglu eða ákæruvaldi sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í tengslum við sakamál getur einnig komið fyrir dóm sem vitni. Hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki ákærði eða fyrirsvarsmaður hans, er skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik. Það sama á við þá sem veitt hefur ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en mál er höfðað.
Þ
Þvingunarráðstafanir
Þvingunarráðstafanir eru fyrst og fremst þær aðgerðir sem nýtast lögreglu við rannsókn sakamála. Má sem dæmi nefna haldlagningu, leit, líkamsrannsókn, símahlustun, handtöku, farbann og gæsluvarðhald.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari