Tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindarvíkurbæ
28. nóvember 2023
Alþingi samþykkti þann 27. nóvember frumvarp félagsmálaráðherra um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna. Markmið með lögunum er að vernda afkomu fólks sem ekki getur sinnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ með því að tryggja launagreiðslur til viðkomandi upp að ákveðnu hámarki. Jafnframt er markmiðið að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks.
Þessi lög gilda um tímabundnar greiðslur og gilda frá og með 11. nóvember 2023 til og með 29. febrúar 2024 í eftirfarandandi tilfellum:
Til atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði sem greitt hafa starfsfólki laun sem geta ekki sinnt störfum sínum á starfsstöð í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfara.
Til starfsfólks sem getur ekki sinnt störfum sínum á starfsstöð í Grindavíkurbæ og launagreiðslur hafa verið felldar niður.
Til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem geta ekki sinnt störfum sínum í Grindavíkurbæ.
Opinberir starfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga falla ekki undir þetta úrræði.
Vinnumálastofnun vinnur að uppsetningu á umsóknar- og greiðslukerfi fyrir umsækjendur þar sem hægt verður að sækja um stuðning til greiðslu launa á Mínum síðum Vinnumálastofnunar.
Ætlunin er að byrja að opna fyrir umsóknir fyrir launafólk þar sem greiðslur til launa hafa fallið niður og til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Reiknað er með að opnað verður fyrir umsóknir í byrjun desembermánaðar.
Opnað verður fyrir umsóknir til atvinnurekanda um miðjan desembermánuð.
Tilkynning mun koma á heimasíðu Vinnumálastofnunar þegar opnað verður fyrir umsóknir.