Fara beint í efnið
Vinnumálastofnun Forsíða
Vinnumálastofnun Forsíða

Vinnumálastofnun

Stuðningur vegna launa fólks sem starfar í Grindavík

17. nóvember 2023

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum nú í morgun frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um tímabundinn stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavík.

Lögin taka til starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem getur ekki mætt til vinnu vegna þess að starfsstöð þess er staðsett í Grindavíkurbæ. Markmið laganna er að vernda afkomu umræddra einstaklinga með því að tryggja laun þeirra upp að ákveðnu hámarki. Markmið laganna er sömuleiðis að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks þannig að sem flest þeirra sem vinna í Grindavík haldi störfum sínum.

Gert er ráð fyrir að ríkið greiði fjárhæð að ákveðnu hámarki sem gangi upp í laun starfsfólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga og að stuðningurinn sem ríkið greiðir geti numið allt að 633.000 krónum á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta er sama hámarksfjárhæð og Ábyrgðasjóður launa greiðir.

Ef einstaklingar sem lögin gilda um verða fyrir því að fá ekki greidd laun, þrátt fyrir ofangreint úrræði, munu þeir sjálfir geta fengið stuðning frá Vinnumálastofnun, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt.

Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laganna og hafinn er vinna við útfærslu umsóknarferils. Nánari upplýsingar um hvenær hægt verður að sækja um verða veittar á næstu dögum.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.