Fara beint í efnið
Vinnumálastofnun Forsíða
Vinnumálastofnun Forsíða

Vinnumálastofnun

Stafræn umsókn um fæðingarorlof vex og dafnar

8. nóvember 2022

Stafræn umsókn um fæðingarorlof er nú einnig opin verðandi foreldrum sem eru í námi, eru utan vinnumarkaðar sem og þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur.

Faedingarorlof

Í byrjun árs 2022 var almenn umsókn um fæðingarorlof komið á stafrænt form. Náði umsóknin til umsækjenda á almennum vinnumarkaði og sjálfstætt starfandi.

Nú hefur fæðingarstyrk verið bætt við umsóknina þannig að námsmenn og aðilar utan vinnumarkaðar geta valið stafræna umsókn. Að auki eiga þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur nú kost á að sækja um. Yfir 60% umsækjenda um fæðingarorlof kjósa stafrænan feril. Búast má við að það hlutfall hækki eftir því sem hópur þeirra sem geta nýtt sér ferlið stækkar.

Stafræn umsókn um fæðingarorlof er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Stafræns Íslands.

Stafræn umsókn þýðir að umsækjandi þarf ekki að safna neinum pappírum eða undirskriftum og senda til Fæðingaorlofssjóðs heldur er ferlið sjálfvirkt. Umsækjandi hefur ferilinn á Ísland.is og umsóknin sækir sjálf áætlaðan fæðingardag til Heilsuveru, upplýsingar til Þjóðskrár og launatengdar upplýsingar til Skattsins. Umsóknin leiðir umsækjanda í gegnum notendavænt viðmót þar sem tilvonandi foreldri svarar spurningum á borð við hvenær áætlað er að hefja fæðingarorlof og hvernig óskað er eftir að því sé skipt.

Þegar móðir hefur fyllt út umsókn sendist hún sjálfkrafa til maka og þaðan til vinnuveitenda ef við á. Að lokum skilar umsóknin sér beint inn í starfskerfi Fæðingarorlofssjóðs og verðandi foreldrar geta fylgst með stöðu umsóknar á Mínum síðum Ísland.is og í Ísland.is appinu.