Fara beint í efnið
Vinnumálastofnun Forsíða
Vinnumálastofnun Forsíða

Vinnumálastofnun

Eineltisstefna

Það er stefna Vinnumálastofnunar að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu kurteisi og virðingu í samskiptum. Allt starfsfólk Vinnumálastofnunar á rétt á því að líða vel á sínum vinnustað. Það á að vera öruggt á vinnustaðnum og ekki sæta einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni né ofbeldi af neinu tagi. Vinnumálastofnun líður ekki þannig hegðun. Til að fyrirbyggja að ofangreind hegðun nái að þrífast skal stefna þessi kynnt starfsmönnum árlega og einnig skal hún kynnt nýjum starfsmönnum þegar þeir hefja störf hjá stofnuninni. Skilgreining stofnunarinnar á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum styðst við reglugerð 1009/2015.

Einelti: síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

  • Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

  • Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

  • Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Markmið áætlunar þessarar er að:

  • Starfsmönnum sé ljóst að ofangreind hegðun er ekki liðin á vinnustaðnum.

  • Starfsmenn Vinnumálastofnunar viti hvert leita skal komi þessar aðstæður upp á vinnustaðnum.

  • Að boðleiðir vegna mála af þessu tagi innan vinnustaðarins séu öllum starfsmönnum kunnugar. Starfsmönnum sé kunnugt um málsmeðferð slíkra mála innan vinnustaðarins.

Ábyrgðaraðilar:

  • Eineltisteymi. Mannauðssviðið tilnefnir þrjá til fjóra einstaklinga frá mismunandi sviðum stofnunarinnar til að starfa í eineltisteymi stofnunarinnar. Eineltisteymið ber ábyrgð á faglegri meðferð mála er lúta að einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi. Eineltisteymið skal sjá um að stýra viðbrögðum innan vinnustaðarins. Mikilvægt er að koma málinu beint í þann farveg og fara ekki að reyna að leysa málin án aðkomu teymisins, sem skal tryggja sanngjarna og hlutlausa meðferð. Meðlimir eineltisteymis skulu hafa nauðsynlega þekkingu til að vinna faglega að lausn mála. Það er á ábyrgð mannauðssviðs að sjá til þess að meðlimir eineltisteymisins hafi aðgang að viðeigandi og nauðsynlegri fræðslu. Eineltisteymið ber einnig ábyrgð á að upplýsingum um málsmeðferð séu vistuð með þeim hætti að trúnaðar sé gætt.

  • Stjórnendur. Bera ábyrgð á að stuðla að góðri og viðurkenndri hegðun innan hverrar starfseiningar sem og að iðka góða stjórnarhætti. Þeir skulu vinna að því að grundvallarreglur samskipta á þeirra starfsstöð séu virtar og grípa til aðgerða ef misbrestur verður á því. Þeir eiga að vera færir um að leysa ágreiningsmál og hagsmunaárekstra á sinni starfsstöð en sé grunur um einelti, kynbundið áreiti, kynferðislega áreitni eða ofbeldi skal yfirmaður upplýsa eineltisteymi. Áframhaldandi meðferð málsins er síðan ákveðin í samráði við eineltisteymið.

  • Öryggistrúnaðarmenn. Skulu aðstoða starfsmenn sem til þeirra leita við að koma málum í réttan farveg. Þegar eineltisteymi og stjórnendur líta svo á að málið sé lokið að þeirra hálfu þá skal upplýsa öryggistrúnaðarmanni stofnunarinnar.

  • Starfsmenn. Öllum starfsmönnum ber að tilkynna til næsta yfirmanns, eineltisteymis eða öryggistrúnaðarmanns verði þeir vitni að einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Málsmeðferð

Komi upp einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum skulu þolendur eða starfsmenn sem verða vitni að þessari óæskilegu hegðun leita til næsta yfirmanns. Yfirmaður upplýsir eineltisteymi sem stýrir málsmeðferðinni. Ef yfirmaðurinn er gerandinn, hundsar vandamálið eða starfsmanni finnst erfitt að leita beint til hans er hægt að leita beint til meðlima eineltisteymis eða öryggistrúnaðarmanna. Nöfn öryggistrúnaðarmanna og meðlima eineltisteymis má finna á upplýsingasíðu Mannauðssviðs, Mannauðurinn. Þessir aðilar skulu sýna þolanda fullan trúnað.

Vinnumálastofnun mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, t.d. með áminningu, tilflutningi í starfi eða eftir atvikum uppsögn. Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð, að höfðu samráði við þolanda og gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð.

Málsmeðferð getur annaðhvort farið í óformlegra eða formlegra málsmeðferð, eftir alvarleika þeirra.

Óformleg málsmeðferð

Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Eineltisteymi, þolandi og næsti yfirmaður taka í framhaldi af því ákvörðun um áframhaldandi málsmeðferð. Fyllsta trúnaðar skal ávallt gætt við meðferð mála.

Formleg málsmeðferð

Gerð er athugun á málsatvikum af eineltisteymi eða utanaðkomandi óháðum aðila og málið tilkynnt Vinnueftirlitinu. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, SMS-skilaboð eða annað sem varpað getur ljósi á málið.

Vinnumálastofnun getur gripið til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti og taka þær mið af alvarleika brots og vilja til að breyta hegðun sinni. Slíkar aðgerðir geta t.d. verið áminning, tilflutningur í starfi eða eftir atvikum uppsögn.

Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda. Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð. Allra leiða skal leitað til að finna viðeigandi lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun, hann gæti líka fengið formlega áminningu, verið færður til í starfi eða eftir eðli máls, verið sagt upp störfum. Sé ekki um ofbeldi að ræða heldur samskiptavanda, verður leitað sátta í málinu.

Málinu verður fylgt eftir og rætt aftur við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins. Á meðan á málsmeðferð stendur þarf að tryggja viðeigandi stuðning við báða aðila.

Það er öllum í hag að skapa aðstæður á vinnustað þar sem öllum líður vel, mikilvægt er að eiga opin samskipti og vera með skýrar reglur. Vellíðan og heilbrigði starfsmanna er lykill að góðu og heilbrigðu vinnusamfélagi.

Viðbragsáætlun EKKO