Þjónustuskilmálar vegna birtingar upplýsinga á Mínum síðum
Almennt
Stafrænt Ísland f.h. fjármála og efnahagsráðuneytisins er þjónustuveitandi Minna síðna. Mínar síður er aðgangsstýrt svæði á innri vef Ísland.is þar sem notendur geta nálgast upplýsingar frá þjónustuþegum.
Skilmálar þessir og eftir atvikum samningar og viðaukar sem gerðir eru mynda samkomulag þjónustuveitanda og þjónustuþega um birtingu upplýsinga á Mínum síðum. Skilmálunum er ætlað að skilgreina ábyrgðarsvið aðila þegar kemur að rekstri, viðhaldi og upplýsingum á Mínum síðum og byggja á vinnsluskilmálum Stafræns Íslands.
Þjónustuskilmálar þessir gilda ekki um Stafrænt Pósthólf eða innskráningar- og umboðskerfi Ísland.is enda gilda fyrir þær þjónustur sérstakir skilmálar.
1. Skilgreiningar
Í skilmálum þessum, þar sem samhengi texta leyfir, skulu eftirfarandi hugtök skilgreind með þeim hætti sem hér segir:
Aðilar: Þjónustuveitandi og þjónustuþegi.
Notandi: Einstaklingur eða fulltrúi lögaðila sem hefur aðgang að Mínum síðum.
Efnisstefna: Stefna þjónustuveitanda um gæði efnis og leiðakerfi Ísland.is, sjá hér.
Hönnunarkerfi: Samantekt leiðbeininga, reglna og krafna sem gerðar eru til útlits verkefna Ísland.is og gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar aðgengismál, sjá hér.
Tengiliður þjónustuþega: Starfsmaður þjónustuþega sem hefur yfirumsjón með birtingu upplýsinga frá þjónustuþega á Mínum síðum.
Stafrænt Pósthólf: Stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Um pósthólfið gilda þjónustuskilmálar stafræns pósthólfs., sjá hér
Innskráningar- og umboðskerfi Ísland.is: Um innskráningarþjónustu og umboðskerfi gilda Þjónustuskilmálar innskráningarþjónustu og umboðskerfis, sjá hér
Mínar síður: Aðgangsstýrt svæði á innri vef Ísland.is
Vinnsluskilmálar: Skilmálar Stafræns Íslands um vinnslu persónuupplýsinga fyrir hönd opinberra aðila og tengdar skyldur.
Þjónustan: Grunnrekstur á Mínum síðum.
Þjónustuþegi: Birtingaraðili upplýsinga á Mínum síðum
Þjónustuveitandi: Stafrænt Ísland í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
2. Þjónustubeiðni
Þjónustuþegi skal að kynna sér virkni, aðgangsstýringu og framsetningu upplýsinga á Mínum síðum áður en hann leggur inn beiðni um birtingu upplýsinga á Mínum síðum.
Þjónustuveitandi tekur við beiðni þjónustuþega um birtingu upplýsinga á Mínum síðum. Í beiðni þjónustuþega um samstarf skulu koma fram nauðsynleg atriði vegna beiðni um samstarf, þ.m.t. tegund upplýsinga sem óskað er birtingar á. Þjónustuþega er heimilt að afturkalla beiðnina án skýringar.
Þjónustuveitanda er heimilt að synja beiðni ef þjónustuveitandi telur t.d. að upplýsingarnar krefjist umfangsmikillar sérvinnslu eða upplýsingarnar eru þess eðlis að þær samræmist ekki efnisstefnu eða hlutverki Minna síðna.
3. Almennt
Þjónustuveitandi kemur á fót tengingu þjónustuþega við Mínar síður. Þjónustuveitandi veitir sérfræðiaðstoð fyrir almenna aðlögun og uppsetningu upplýsinga. Þjónustuþegi tilnefnir tengilið varðandi framsetningu og efni þjónustuþega sem birtist á Mínum síðum.
Þjónustuveitandi ber ábyrgð á grunnrekstri Minna síðna. Undir grunnrekstur fellur rekstur þeirra eininga sem sækja upplýsingar til þjónustuþega, vefumsjón, reglulegar uppfærslur á hugbúnaði, lítilsháttar breytingar á útliti vefsíðu, öryggisúttektir og bilanavakt.
Þjónustuþegi ber ábyrgð á réttmæti og innihaldi þeirra upplýsingar sem þjónustuveitandi birtir fyrir hans hönd á Mínum síðum. Þjónustuþegi tekur á móti og annast allar fyrirspurnir notenda um upplýsingarnar sem frá honum stafa.
Þjónustuþegi tryggir að upplýsingar á Mínum síðum séu aðgengilegar. Ef upplýsingar eru ekki aðgengilegar eða rangar skuldbindur þjónustuþegi sig til að bæta úr villunni og upplýsa notendur um hana.
4. Tegund upplýsinga
Aðilar skulu skjalfesta [HSJ2] [KF3] hvaða tegund upplýsinga er birt á Mínum síðum í verksamningi eða viðauka honum tengdum. Komi til nýrrar tegundar upplýsinga sem þjónustuþegi vill birta á Mínum síðum fer um það í samræmi við gr. 2. í skilmálum þessum.
Ef tenging vegna miðlunar á upplýsingum krefst sérstakrar forritunarvinnu skulu aðilar semja sérstaklega um það, þ.m.t. kostnaðar, og ábyrgðarskiptingu.
5. Öryggismál
Þjónustuveitandi ber ábyrgð á að viðhafa viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þjónustunnar. Öryggisráðstafanir skulu taka mið af nýjustu tækni, kostnaði við innleiðingu, umfangi, samhengi, tilgangi vinnslu og áhættu á öryggisbresti.
Þjónustuþega og þjónustuveitanda ber að tilkynna gagnaðila sem fyrst ef grunur leikur á óviljandi, óheimilli eða ólöglegri vinnslu upplýsinga eða ef grunur er uppi um hvers konar öryggisbrest við meðferð á upplýsingum sem fram koma á Mínum síðum Tilkynninguna skal senda á almennt netfang viðkomandi aðila (í tilviki þjónustuþega, island@island.is). Í slíkri tilkynningu skal viðkomandi aðili lýsa eðli brestsins, þ. á m. áætluðum fjölda skráðra einstaklinga sem bresturinn hefur haft áhrif á og umfangi dreifingu upplýsinganna. Þá skal viðkomandi aðili lýsa líklegum afleiðingum brestsins og þeim ráðstöfunum sem hann hefur gert eða fyrirhugað að gera vegna hans.
6. Skaðleysi
Þjónustuveitandi ber ekki í neinum tilvikum ábyrgð á tjóni sem rekja má til notkunar á þjónustunni eða þeim upplýsingum sem birtar eru á Mínum síðum. Þetta á einnig við um tilvísanir og tengla í efni utan Minna síðna. Þá ber þjónustuveitandi ekki í neinum tilvikum ábyrgð á tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota Mínar síður, um skemmri eða lengri tíma, vegna bilana í hug- eða vélbúnaði þjónustuveitanda eða tengdum hug- eða vélbúnaði þriðja aðila.
Verði einhver mistök, truflanir eða tafir á þjónustu þjónustuveitanda skal ábyrgð hans takmarkast við að lagfæra slík mistök, truflanir eða tafir, svo fljótt sem auðið er
Þjónustuþegi skal halda þjónustuveitanda skaðlausum af hvers konar tjóni, kröfum, aðgerðum, skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum og kostnaði (þ.m.t. lögfræðikostnaði) sem þjónustuveitandi kann að verða fyrir vegna eða í tengslum við aðgerðir eða aðgerðarleysi þjónustuþega. Skaðleysisábyrgð þessi takmarkar ekki með neinum hætti önnur samningsbundin eða lögbundin réttindi sem þjónustuveitandi kann að njóta gagnvart þjónustuþega og hugsanlegar bætur eða skaðleysisgreiðslur réttlæta ekki brot á skyldum og skuldbindingum þjónustuþega.
Þjónustuveitandi ber eingöngu ábyrgð á tjóni þjónustuþega ef það má rekja til stórkostlegs gáleysis eða ásetnings starfsmanna þjónustuveitanda. Ábyrgð þjónustuveitanda nær í slíku tilviki eingöngu til beins tjóns en aldrei til afleidds tjóns sem verða kann af þessum sökum, s.s. rekstrarstöðvunar, tapaðra viðskipta eða álitshnekkis.
7. Greiðslur
Þjónustan er aðgengileg þjónustuþega án endurgjalds.
Komi til breytinga á gjaldtöku verða þær kynntar fyrir þjónustuþega 90 dögum áður en þær taka gildi.
8. Rekstraröryggi
Aðilar skuldbinda sig til að stuðla að öruggum rekstri þjónustunnar og vinna jafnframt sameiginlega að viðgerðum ef rekstrartruflanir verða.
Verði þjónustuþegi þess áskynja að þjónustan sé að einhverju leyti í ólagi ber honum að tilkynna þjónustuveitanda um það án tafar. Þjónustuþega er í slíkum tilvikum að jafnaði óheimilt að nota þjónustuna þar til þjónustuveitandi hefur lokið athugun á þjónustu sinni.
Ef nauðsynlegt reynist að loka þjónustunni tímabundið vegna viðhalds á kerfum, uppfærslu skráa, og/eða annarra tæknilegra aðgerða, vegna reksturs þjónustunnar, skal þjónustuveitandi tilkynna þjónustuþega um slíkt eins fljótt og kostur er en þó með a.m.k. sólahrings fyrirvara.
Þjónustuveitanda er heimilt að rjúfa aðgang að þjónustunni án viðvörunar ef slíkt reynist nauðsynlegt vegna gruns um öryggisbrest.
Ef þjónustuþegi eða þjónustuveitandi verður fyrir einhverjum hindrunum við að uppfylla samkomulagið gagnvart gagnaðila af ástæðum sem honum eru óviðráðanlegar, þá frestast viðkomandi skyldur til þess tíma er slíkar hindranir eru afstaðnar og aðilar samkomulagsins geta uppfyllt umsamdar skyldur sínar.
9. Uppsögn
Þjónustuveitanda og þjónustuþega er heimilt að segja upp þjónustunni. Skal uppsögnin vera skrifleg og skal þjónustu þá hætt tólf (12) mánuðum eftir móttöku tilkynningar um uppsögn. Allar samningsskyldur aðila haldast á uppsagnarfresti.
Þjónustuveitanda er þó heimilt að hætta að veita þjónustuþega þjónustu án fyrirvara ef þjónustuveitanda er það skylt samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
Hvorki þjónustuveitanda eða þjónustuþegi þarf að tilgreina ástæðu fyrir ákvörðun sinni um að hætta þjónustunni og skal ekki bera neinn kostnað vegna beitingar slíks réttar.
10. Persónuvernd
Þjónustuþegi telst ábyrgðaraðili að birtingu persónuupplýsinga á hans vegum á Mínum síðum. Þjónustuveitandi telst vinnsluaðili sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila.
Persónuverndarstefna þjónustuveitanda á vef Ísland.is uppfyllir ákvæði laga um persónuvernd nr. 90/2018 sem og 28. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um upplýsingagjöf til notenda á vef sýslumanna.
Við vinnslu persónuupplýsinga á Mínum síðum telst þjónustuþegi vera ábyrgðaraðili vinnslunnar í skilningi laga og tryggir þar með m.a. öryggi upplýsinganna, sbr. umfjöllun í persónuverndarstefnu þjónustuþega. Þjónustuveitandi er vinnsluaðili við vinnsluna í samræmi við vinnsluskilmála sem aðilar skulu hafa samþykkt áður en vinnsla á sér stað.
11. Framsal réttinda og skyldna
Þjónustuþega er með öllu óheimilt að framselja eða flytja að hluta eða fullu réttindi sín eða skyldur samkvæmt skilmálum þessum, nema að fengnu skriflegu samþykki þjónustuveitanda.
Þjónustuveitandi kann að nýta sér þjónustu umboðsaðila eða undirverktaka til að sinna skyldum sem á honum hvíla skv. skilmálum þessum en slík vinna skal þó ávallt unnin á ábyrgð þjónustuveitanda gagnvart þjónustuþega. Um notkun undirvinnsluaðila fer samkvæmt persónuverndarskilmálum þjónustuveitanda.
12. Breytingar á skilmálum
Þjónustuveitandi áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og skulu þær tilkynntar þjónustuþega í rafrænni tilkynningu sem send er á uppgefið netfang þjónustuþega eða með öðrum sannanlegum hætti a.m.k. hálfum mánuði áður en ný eða breytt ákvæði taka gildi. Á www.island.is er jafnframt tilkynnt um nýja og/eða uppfærða skilmála áður en þeir taka gildi.
Þjónustuveitanda er heimilt að gera breytingar á skilmálum með skemmri fyrirvara ef slíkar breytingar á skilmálum eru nauðsynlegar samkvæmt lögum. Í slíkum tilvikum þar sem fyrirvarinn kann að vera skemmri skal þjónustuveitandi leitast við að tilkynna slíkar breytingar eins fljótt og mögulegt er.
Skilmálar þessir voru síðast uppfærðir: 02.05.2023