Prófessor frá Noregi í heimsókn á SHH
25. ágúst 2025
Þann 11. og 12. ágúst síðastliðinn kom Lindsay Ferrara, prófessor í táknmálsfræðum við Vísinda- og tækniháskóla Noregs (NTNU) í heimsókn til okkar á SHH.
Lindsay hefur undanfarin ár stýrt því verkefni að búa til málheild fyrir norskt táknmál (NTS). Í samræmi við aðgerðaáætlun málstefnu íslensks táknmáls 2024-2027 vinnur SHH að gerð verkefnaáætlunar fyrir málheild ÍTM í samstarfi við fræðimenn innan Rannsóknastofu í táknmálsfræðum. Guðný Björk Þorvaldsdóttir, fagstjóri rannsókna á SHH og Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands, sátu langa vinnufundi með Lindsay hér á SHH og var sú þekking sem hún miðlaði til þeirra mikill fengur fyrir áframhaldandi málheildarvinnu hér á landi. Linday hélt einnig opinn fyrirlestur á vegum Rannsóknarstofu í táknmálsfræðum um endurgjöf í táknmálssamskiptum bæði í norsku táknmáli (NTS) og fransk-belgísku táknmáli (LSFB). Gögnin sem rannsókn Lindsay byggði á voru úr málheildum þessara tveggja táknmála. Vel var mætt á fyrirlesturinn enda áhugavert tækifæri til að kynnast því sem verið er að rannsaka í erlendum táknmálum og hvaða möguleikar verða til notkunar á málheild ÍTM í framtíðinni.

