Ný myndbönd á Signwiki
16. júní 2025
Í tilefni af því að 15. júní er sá dagur sem Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls tóku gildi árið 2011, birtir SHH nú nokkur myndbönd með málhöfum ÍTM á SignWiki. Í þetta sinn er um að ræða tvær konur af ólíkum kynslóðum, Kötlu og Dísu, en þær eru báðar fallnar frá.
Katla Þórðardóttir fæddist 3. október 1945 í Reykjavík og lést 24. nóvember 2017 í Kópavogi.
Hún vann ýmis störf, var mikil hannyrðakona og þótti auk þess mikill húmoristi og góður sögumaður. Tekin voru tvö viðtöl við Kötlu á SHH þar sem hún sagði m.a. frá lífshlaupi sínu, fjölskyldu og skólagöngu. Það eru Steinunn Þorvaldsdóttir og Svava Jóhannesdóttir sem tala við Kötlu.
Bryndís Halldóra Steindórsdóttir, alltaf kölluð Dísa, fæddist á Akureyri 24. júlí 1972, en lést af slysförum einungis 17 ára að aldri 3. júní 1990.
Hún kom fyrst í Heyrnleysingjaskólann á sjötta ári og bjó á heimavistinni frá 10 ára aldri, þar sem hún var mikill gleðigjafi fyrir yngri sem eldri. Á myndböndunum sést Dísa segja frá sjálfri sér og auk þess flytja frumsamið ljóð, 16-17 ára gömul.
Birtingu myndbanda með málhöfum íslensks táknmáls á SignWiki er í samræmi við stefnu Samskiptamiðstöðvar fyrir árin 2024-2026, þar sem fram kemur að auka eigi framboð af útgefnu táknmálsmenningarefni. Er þetta einnig í samhengi við það markmið stjórnvalda að efla þjónustu við táknmálsfólk, eins og fram kemur í fjármálaáætlun 2025-2029 og málstefnu íslensks táknmáls, þar sem lögð er áhersla á varðveislu málsins og að varðveitt efni sé birt almenningi.
Til að horfa á myndböndin á SignWiki nýtið þá þennan hlekk fyrir viðtölin við Kötlu og þennan fyrir myndböndin með Dísu.
