Í tilefni Alþjóðadags táknmála
23. september 2025
Í tilefni alþjóðadags táknmála birtir SHH myndbönd með málhafa ÍTM á SignWiki

Daníel Jacob Jensen fæddist í Skálavík á Sandey í Færeyjum 14. júní 1930 og lést 13. janúar 2013 í Reykjavík.
Hann kom til Íslands 1956 í atvinnuleit, settist hér að. Daníel kom með nýja strauma inn í samfélag heyrnarlausra á Íslandi, enda hafði hann kynnst slíkum samfélögum á Norðurlöndum. Hann hvatti til þess að stofnað yrði Félag heyrnarlausra og vann ásamt öðrum að stofnun þess félags árið 1960, félags sem starfar enn í dag. Daníel sat í stjórn félagsins meira og minna allan fyrsta áratuginn og var formaður í 6 ár. Hann var gerður að heiðursfélaga félagsins á 50 ára afmæli þess árið 2010, fyrir mikil og óeigingjörn störf í þágu þess.
Daníel tók virkan þátt í varðveitingu ÍTM, m.a. með því að taka þátt í rannsóknum og taka upp ýmsar frásagnir úr lífi sínu. Hann var einnig bæði viðmælandi og spyrill í viðtölum á vegum SHH.
Í tilefni af Alþjóðadegi táknmála eru myndbönd með Daníel birt hér á SignWiki.
