Agenzija Sapport heimsækir SHH
8. mars 2024
Dagana 27. febrúar til 1. mars komu í heimsókn til Samskiptamiðstöðvar fjórir starfsmenn Agenzija Sapport á Möltu, í hópnum voru þrír túlkar og yfirmaður þeirra og fengu þau styrk til þessarar ferðar frá Erasmus+ áætluninni.
Í þessari heimsókn fræddum við þau um starfsemi Samskiptamiðstöðvar sem Kristín Lena, forstöðumaður, kynnti fyrir þeim, Júlía, fagstjóri kennslu, sagði þeim frá táknmálskennslunni hjá okkur, Árný, sviðsstjóri túlkaþjónustu, kynnti túlkaþjónustuna og Fríða, verkefnisstjóri myndbandageymslu og varðveislu, sagði frá meistararannsókn sinni um mikilvægi undirbúnings fyrir túlka. Einnig kíktu þau inn í kennslustund hjá Uldis, verkefnisstjóra í táknmálskennslu, í Táknmálseyjunni og svo héldu þau kynningu á túlkaþjónustu á Möltu sem rekin er innan Agenzija Sapport sem var fróðlegt fyrir okkur hér á SHH að heyra um og við getum lært af þeirra vinnulagi.
Þeim fannst mjög áhugavert að sjá hvernig starfsemin okkar er byggð upp og sáu fyrir sér að geta nýtt upplýsingar héðan frá Íslandi til að efla sína starfsemi á Möltu.
Ferðina til Íslands nýttu Maltverjarnir einnig til að heimsækja leikskólann Sólborg, táknmálssvið Hlíðaskóla og Rannveigu Sverrisdóttur, lektor táknmálsfræði- og táknmálstúlkun í Háskóla Íslands og fengu þannig upplýsingar á breiðum grunni hvað varðar táknmálsþjónustu sem í boði er hér í Reykjavík.