Vísindafólkið okkar - Pála Sigríður Tryggvadóttir
5. júlí 2024
Námsstöður á mennta- og vísindadeild SAk eru ætlaðar fastráðnu starfsfólki í framhaldsnámi sem minnka við sig vinnu vegna vísindavinnu. Í sumar ætlum við að fræðast um rannsakendur í þessum stöðum og verkefnin þeirra. Nú er komið að Pálu Sigríði Tryggvadóttur hjúkrunarfræðingi, meistaranema í heilbriðgisvísindum og stundakennara við HA.
Staða í námi:
Vinnur að meistaraverkefninu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri með áherslu á krabbamein og líknandi meðferð.
Heiti rannsóknaverkefnis og markmið:
Samskipti og myndun meðferðarsambands í líknar- og lífslokameðferð: reynsla aðstandenda á bráðalegudeildum sjúkrahúsa.
Markmiðið er að kanna viðhorf og reynslu aðstandenda af meðferðinni og þjónustunni sem veitt var. Ég hef sérstakan áhuga á því að fá innsýn í þann þátt sem snýr að samskiptum aðstandenda við heilbrigðisstarfsfólk á þessum tíma. Hvaða þættir það voru sem aðstandendum þóttu vera mikilvægir í samskiptum, góðir eða slæmir og hvernig ákvarðanatökum um meðferð var háttað.
Hvers vegna er rannsókn þín mikilvæg?
Rannsóknin er mikilvægt innlegg í að koma til móts við þann augljósa skort á svona rannsóknum á Íslandi. Niðurstöður rannsóknarinnar geta gefið vísbendingar um hvort þörf sé á breytingum í skipulagi og þjónustu sem veitt er sjúklingum sem eru í líknar- og lífslokameðferð og aðstandendum þeirra, hvort þörf sé á breytingum í samskiptaháttum heilbrigðisstarfsfólks, hvað megi gera betur og hvaða mögulegu hindranir gætu verið til staðar.
Hvernig hefur SAk stutt þig í vísindavinnunni?
Ég hef verið í námsstöðu við mennta- og vísindadeildina í fjóra mánuði á þessu ári og hefur það hjálpað mér við vinnslu verkefnisins. Ég vil koma á framfæri þakklæti fyrir veittan stuðning frá SAK.
Leiðbeinandi: Dr. Elísabet Hjörleifsdóttir.
Námsstöður á mennta- og vísindadeild SAk eru ætlaðar fastráðnu starfsfólki í framhaldsnámi sem minnka við sig vinnu vegna vísindavinnu. Á næstu vikum ætlum við að fræðast um þessa rannsakendur og verkefnin þeirra.