Fara beint í efnið

Viðurkenning fyrir útdrátt um svefnrannsókn

1. nóvember 2023

Þátttaka starfsfólks SAk á alþjóðlegri svefnráðstefnu í Brasilíu

Starfsfólk SAk tók þátt í WorldSleep ráðstefnunni í Brasilíu

World Sleep 2023 heimsráðstefnan fór fram í Rio de Janeiro í Brasilíu dagana 20. – 25. október. Á ráðstefnunni kynntu Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk, Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í lýðheilsuvísindum við HÍ og Magnús Ingi Birkisson, sérnámsgrunnlæknir rannsóknina „Algengi svefnvandamála meðal barna“.

„Erindin voru mjög fjölbreytt en við sóttum til að mynda erindi sem tóku fyrir svefntengda sjúkdóma og meðferð þeirra, mælingar á svefni og íhlutanir á sviðinu. Sem næringarfræðingur þá fannst mér virkilega áhugavert að fræðast um nýjar rannsóknir sem eru að kanna tengsl næringar, örveruflórunnar í meltingaveginum og svefns. Þátttakendur í okkar rannsókn svöruðu spurningalista um fæðuval og það verður virkilega áhugavert að skoða betur samband kæfisvefns og fæðuvals þar sem þetta er vanrannsakað svið,“ segir Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk.

Á ráðstefnunni fékk Magnús sérstök verðlaun fyrir útdrátt sinn um svefnrannsóknina. Verðlaunin voru veitt nýjum rannsakendum við hátíðlega athöfn á ráðstefnunni.

„Þegar haft var samband við mig um hvort að ég hefði áhuga á að taka þátt í þessari rannsókn, óraði mig ekki fyrir hvert þetta gæti leitt mig. Ég kom seint inn í teymið, þegar undirbúningur fyrir læknaheimsóknir og utanumhald fyrir eftirfylgnina var að hefjast. Teymið var þá búið að vinna hörðum höndum við að setja rannsóknina á laggirnar, sækja um leyfi á ýmsum stöðum og byrjuð að mæla börnin. Að koma inn í hópinn var ógnvekjandi til að byrja með, þar sem skalinn á verkefninu virtist svo stór. En boltinn fór að rúlla, læknisheimsóknirnar gengu vel, það gekk vel hjá börnunum að mæla svefninn og einna helst gekk samvinnan í öllu teyminu eins og í sögu. Ég hef lengi vitað að mig langar að vinna við barnalækningar í framtíðinni með erfðalækningar sem undirsérgrein. Ég tel að verkefnið hafi eflt mig sem klínískan rannsakanda og að reynslan verði mér ómetanleg við rannsóknarvinnu í framtíðinni. Að vinna svo náið með sérfræðingum á sínu sviði hefur einnig veitt mér aukna þekkingu á klínískum vinnubrögðum, þar sem ég var viðstaddur skoðanirnar og fékk að spreyta mig sjálfur undir handleiðslu í rólegu andrúmslofti. Það var svo rúsínan í pylsuendanum að fá að kynna verkefnið núna í október á heimsráðstefnunni í svefni í Rio de Janeiro, þar sem sérfræðingar í svefni hvaðan af úr heiminum munu koma saman,“ ritaði Magnús í tæknilegri lokaskýrslu um rannsóknina.

Ingibjörg Ösp kynnti meistaraverkefni sitt á ráðstefnunni. Verkefnið ber heitið: „Obstructive Sleep Apnea (OSA): Prevalence among 4-8 Years old Children in the General Population and Connection with Overweight/Obesity”. Gróa Björk Jóhannsdóttir yfirlæknir barnalækninga og Laufey Hrólfsdóttir eru leiðbeinendur hennar.

Ingibjörg er mjög þakklát fyrir að fá að kynna verkefnið fyrir svo breiðum hópi sérfræðinga: „Eftir alla vinnuna er gaman að fá að kynna niðurstöðurnar og þá sérstaklega á svona stórri ráðstefnu. Það hafa verið forréttindi að koma að þessu verkefni, vera með í því frá upphafi og vinna með teyminu. Það er mjög góð samvinna og hvatning í þessum hóp og þessi vinna hefur líka aukið áhuga minn á rannsóknarvinnu og gefið manni ómetanlega reynslu á því sviði. Svo verður að nefna að börnin, og foreldrarnir, sem hafa tekið þátt, hafa verið áhugasöm og samviskusöm, og það gerði verkefnið enn skemmtilegra.“

Nánar má lesa um ráðstefnuna hér.