Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Verkefnið „Velkomin til Akureyrar“ hlaut styrk

17. desember 2025

Akureyrarbær hlaut á dögunum styrk að upphæð 1,9 millj. kr. úr uppbyggingarsjóði SSNE til verkefnis sem kallast „Velkomin til Akureyrar“. Það snýst um að stuðla að samstarfi fyrirtækja og stofnana um hvernig megi best taka á móti starfsfólki sem er af erlendu bergi brotið. Samstarfsaðilar verkefnisins eru, ásamt Akureyrarbæ, SÍMEY, Sjúkrahúsið á Akureyri, Kjarnafæði Norðlenska og Bílaleiga Akureyrar.

Meðal þess sem verkefnið felur í sér að greina stöðuna, ná utan um þær aðferðir sem reynst hafa vel, kortleggja tækifæri til sameiginlegs lærdóms, móta verklag og vinnubrögð og miðla til annarra fyrirtækja og stofnana.

Til lengri tíma miðar verkefnið að því að fyrirtæki og stofnanir á Akureyri og í Eyjafirði verði þekkt fyrir að taka vel á móti erlendu starfsfólki. Vel heppnuð móttaka styrkir þátttöku nýrra íbúa í starfi og samfélagi og eykur líkur á að hæft starfsfólk setjist hér að til lengri tíma.

„Við fögnum þessum styrk og samstarfinu sem hann gerir verkefnið mögulegt. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks af erlendum uppruna sem gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja örugga og vandaða heilbrigðisþjónustu. Markviss og hlýleg móttaka skiptir miklu máli, ekki aðeins á fyrstu dögum í starfi heldur til lengri tíma litið. Með verkefninu „Velkomin til Akureyrar“ gefst tækifæri til að læra af reynslu annarra, samræma verklag og styrkja enn frekar aðlögun nýrra starfsmanna – til hagsbóta fyrir starfsfólk, sjúklinga og samfélagið í heild.“ segir Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs.

Mynd: Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs