Velferðartorg SAk fær 4 og hálfa stjörnu af fimm mögulegum
28. september 2023
Verkefnið hefur slegið í gegn hjá starfsfólki
Velferðartorg SAk – úrræði til að koma til móts við krefjandi vinnuumhverfi starfsfólks innan SAk – fór af stað í byrjun febrúar á þessu ári. Torgið veitir starfsfólki SAk aðgang að 17 mismunandi meðferðaraðilum, þar á meðal sálfræðingum, nuddurum, næringarfræðingum, markþjálfa og fjölskyldufræðingum o.fl.. Auk þess er hægt að nýta tímana í ýmiskonar líkamsrækt. Velferðatorg er starfsfólki SAk að kostnaðarlausu allt að þrír tímar á ári.
„Kannanir segja okkur að starfsfólk upplifir að verið sé að reyna að styðja við mannauðinn og koma enn frekar til móts við þarfir þess, þó heilmikil vinna hafi verið lögð í að hlúa að mannauðnum í gegnum tíðina þá er þetta verkefni einfaldlega mun sýnilegra en önnur verkefni sem hafa verið sett í gang,“ segir Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs.
Markmiðið með Velferðartorginu er að fyrst og fremst stuðningur við starfsfólk, bætt starfsumhverfi, aukin starfsánægja og að starfsfólk upplifi umhyggju og stuðning frá vinnuveitanda.
„Stærstur hluti starfsfólks nýtir sér tíma hjá kírópraktor og nuddurum en einnig sálfræðtíma og „hlúðu að þér“ jógatíma sem skiptir svo miklu máli í samþættingu andlegrar og líkamlegrar heilsu,“ segir Erla.
Verkefnið hefur verið unnið í góðu samstarfi við Heilbrigðisráðuneytið og vonumst við til þess að geta haldið áfram með verkefnið á nýju ári.