Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Upplyfting geðdeildar SAk

21. október 2024

Miðvikudaginn 17. október var haldið opið hús á endurbættri geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) þar sem samstarfsfólki og gestum gafst tækifæri til að skoða nýja aðstöðu deildarinnar.

Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri geðdeildar og Bernard Gerritsma, deildarstjóri geðdeildar

Endurbæturnar hafa falist í miklum breytingum á umhverfi bæði sjúklinga og starfsfólks, þó að fjöldi legu- og meðferðarrýma hafi ekki breyst.

Bernard Gerritsma, deildarstjóri og Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri tóku vel á móti gestum sem voru ánægðir með að fá að skoða aðstöðuna áður en skjólstæðingar flytja inn:

„Við erum mjög ánægð með þessar breytingar sem voru orðnar tímabærar. Aðstaða starfsfólks var ófullnægjandi og takmarkað aðgengi var að skráningum og almennri skipulagsvinnu á vakt. Breyting á vaktrými gefur þá einnig betri yfirsýn yfir deildina í heild. Þá var einnig þörf á endurbótum á sjúklingarýmum, gólfefnum, loftklæðningum og lýsingu ásamt því að mála veggi deildarinnar. Þörfinni fyrir einbýli, fjölgun rýma og aðgengi að útsvæði mætum við þó ekki fyrr en í nýbyggingu geðdeildar á næstu árum en endurbætur á núverandi húsnæði eru að koma afar vel út.“

Þótt legurýmum hafi ekki fjölgað, er aðstaðan öll betri og sérstaklega var hugað að bættri vinnuaðstöðu starfsfólks.

„Framkvæmdirnar hófust þegar deildinni var lokað 7. ágúst. Nú, 10 vikum síðar, getum við loks sýnt afraksturinn sem mun auðvelda bæði starfsfólki og sjúklingum að njóta öruggara og betra umhverfis,“ segir Karl Ólafur Hinriksson teymisstjóri húsumsjónar.

Verktíminn var stuttur og það voru margir starfsmenn SAk sem þurftu að vinna samtímis á sömu svæðum til að láta framkvæmdina ganga upp.

Opnun endurbættrar geðdeildar er stórt skref í átt að bættri þjónustu og umönnun skjólstæðinga á SAk. 2025 er stefnt að fyrstu skóflustungu að viðbyggingu við SAk þar sem öll þjónusta geðdeildarinnar kemur saman á einu svæði.

Endurbætt geðdeild