Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Umsögn Sjúkrahússins á Akureyri vegna tillögu til þingsályktunar um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri

1. nóvember 2023

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn Sjúkrahússins á Akureyri vegna tillögu til þingsályktunar um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

Þyrla Landhelgisgæslunnar

Eftirfarandi umsögn var send:

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri fagnar tillögu til þingsályktunar um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri og styður hana heilshugar. Það er ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni í ljósi aðstæðna m.t.t. veðurs eða annarra skakkafalla. Reynslan í sumar sýndi fram á mikilvægi þess að hafa fleiri starfsstöðvar en einungis á Höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri telur því mikilvægt að koma upp annarri starfsstöð og hafa þá fasta starfstöð á Akureyri sem myndi styrkja viðbragðsgetu á stóru svæði til viðbótar og efla þjónustu við íbúa landsins enn betur sem er mikið öryggismál.

Á Akureyri eru allir nauðsynlegir innviðir til að þjónusta fasta starfsstöð og á SAk er til staðar mikil sérfræðigeta m.a. í ljósi reynslu sjúkrahússins af læknisfræðilegri þjónustu sjúkraflugsins undanfarna tvo áratugi. Einnig má nefna mikil tækifæri í samlegð varðandi mönnun og þá sérfræðiþekkingu sem starfsfólk SAk býr yfir.

Framkvæmdastjórn telur sjúkrahúsið vel í stakk búið að taka á móti sjúklingum úr krefjandi aðstæðum. SAk er varasjúkrahús LSH samkvæmt lögum og verði þetta að veruleika þá mun hlutverk SAk styrkjast enn meira. Ennfremur mun staðsetning þyrlu á Akureyri hafa mikil og góð áhrif á mögulega þjónustu við nærliggjandi svæði, s.s. aðrar heilbrigðisstofnanir og LSH.

Framkvæmdastjórn SAk vonast til þess að þessi tillaga fái góðar undirtektir á Alþingi, öllum til góða.

Þingskjalið má sækja á vef Alþingis hér.