Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Þjálfun leiðbeinenda í hermisetri SAk

23. ágúst 2024

Dagana 15. – 16. ágúst fór fram námskeið fyrir verðandi leiðbeinendur í hermikennslu við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk). Námskeiðið var haldið í nýju hermisetri Mennta- og vísindadeildar SAk.

Hermikennsla

Þátttakendur á námskeiðinu voru læknar og hjúkrunarfræðingar sem starfa á SAk og við Háskólann á Akureyri (HA). Margir þeirra koma að kennslu hjá báðum stofnunum.

Námskeiðið var fjármagnað með styrk úr samstarfssjóði háskólanna. Styrkurinn er ætlaður til uppbyggingar færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri, Landspítala og Háskólann í Reykjavík.

„Með tilkomu nýs hermiseturs á SAk gefst tækifæri til að efla enn frekar hermikennslu í þjálfun heilbrigðisstarfsfólks bæði á SAk og HA. Til þess að geta annað aukinni þörf þurfum við fleiri leiðbeinendur og þá vorum við að þjálfa á þessu námskeiði,“ segir Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir fræðslustjóri SAk.

Á námskeiðinu læra þátttakendur að leiða hermikennslu sem er sífellt vinsælli kennsluaðferð í heilbrigðisvísindum. Kennsluaðferðin veitir þátttakendum tækifæri til æfa sig í sviðsettum aðstæðum og rýna í frammistöðu sína á gagnrýninn hátt án þess að stefna lífi og heilsu sjúklings í hættu.

Notkun hermikennslu hefur verið að aukast undanfarin ár í grunnnámi í hjúkrunarfræði við HA og með væntanlegri fjölgun nemenda eykst þörfin á sérhæfðum leiðbeinendum. Hermikennsla hefur verið notuð með formlegum hætti við þjálfun starfsfólks við móttöku mikið slasaðra á SAk síðan 2010 og síðan 2017 hafa reglulega verið haldin námskeið í þverfagleg hermikennslu í bráðaaðstæðum. Þátttakendur námskeiðsins koma til með að sinna hermikennslu bæði á SAk og í HA.

Við val á þátttakendum var leitast við að hafa þá frá mismunandi sviðum heilbrigðisþjónustu sem nýtist vel við kennslu bæði við HA og SAk. Þátttakendur komu frá HA og geðdeild, bráðamóttöku, gjörgæslu, fæðinga- og kvensjúkdómdeild, skurðlækningadeild, barnadeild og svæfingadeild SAk.

Þátttakendur í TTT námskeiði hermiseturs