Therapy - rafrænt lyfjafyrirmælakerfi tekið í notkun á bráðamóttöku SAk
8. desember 2025
Búið er að gangsetja rafrænt lyfjafyrirmæla- og lyfjaskráningarkerfi, Therapy, á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri (BMT). Tilgangur þess er að bæta lyfjaöryggi sjúklinga og gera lyfjaskráningu skilvirkari þannig að lyf ávísuð í Therapy fylgi sjúklingi, óháð deildinni sem hann er á. Þessum áfanga var skiljanlega fagnað á bráðamóttökunni í með kaffitíma.

Bætt öryggi og betri yfirsýn
Með tilkomu Therapy verða lyfjafyrirmæli og lyfjagjafir skráð rafrænt við komu sjúklings á BMT. Þetta tryggir að upplýsingar um lyfjameðferð fylgi sjúklingi milli deilda og séu aðgengilegar við innlögn, sem eykur verulega öryggi og dregur úr líkum á tvíverknaði og mistökum.
Samvinna margra fagaðila
Verkefnið var unnið í nánu og þverfaglegu samstarfi. Verkefnisstjóri var Jóna Valdís Ólafsdóttir, deildarstjóri lyfjaþjónustu, og í vinnuhópnum voru Íris Gunnarsdóttir lyfjafræðingur, Luciana Clara Paun sérfræðingur upplýsingatæknideildar, Ármann Jónsson bráðalæknir, Elísabet Björgvinsdóttir, forstöðulæknir bæklunar- og bráðalækninga, Kristín Ó. Ragnarsdóttir deildarstjóri BMT, Kristín Hrönn Reynisdóttir aðstoðardeildarstjóri BMT, Valdís Ösp Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á BMT og Bergþór Steinn Jónsson, bráðalæknir. Unnið var í góðu samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækin Helix og Þulu sem komu að tæknilegum þáttum verkefnisins.
„Þetta er stór áfangi í stafrænum umbótum sjúkrahússins og mun bæði auka lyfjaöryggi sjúklinga og einfalda vinnu starfsfólks,“ segir Jóna Valdís. Deildarstjóri bráðamóttökunnar, Kristín Ó. Ragnarsdóttir segir innleiðinguna ákaflega jákvæða „Þetta er mjög jákvætt skref fyrir okkur á Bráðamóttökunni og í takt við nútímakröfur að ávísa ekki lengur lyfjum á pappír.“
Samhliða innleiðingu á Therapy var birgðastýring með Alfa hugbúnaðarlausn innleidd á Bráðamóttöku en Alfa heldur utan um magn lyfja sem til eru á deildinni og gerir sjálfvirkar lyfjapantanir eftir þörfum.
Síðasta skrefið við samþættingu er fram undan
Fram undan er síðasta skrefið í rafrænni heildarlausn, en nýtt samþættingartól milli Therapy og Sögu er í smíðum. Þar til það verður tilbúið á fyrri hluta árs 2026 verður skráning sjúklinga inn og út úr Therapy á BMT framkvæmd handvirkt. Með tilkomu nýja tólsins verður þessi skráning sjálfvirk og ferlið að fullu rafrænt.