Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Styðja við foreldra fyrirbura í oft erfiðum aðstæðum

17. nóvember 2023

Alþjóðlegur dagur fyrirbura hefur verið haldinn 17. nóvember ár hvert síðan 2011 með það að markmiði að gera raunir fyrirbura og aðstandanda þeirra sýnilegri.

Elma Rún Ingvarsdóttir

Hágæsla nýbura á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri er mjög vel tækjum búin til að geta tekið á móti mjög veikum fyrirburum og nýburum og undirbúið þá fyrir flutning á Vökudeild LSH sé þess þörf. „Við höfum tvo hitakassa, endurlífgunarborð, öndunarvél, CPAP, ljósalampa, hitadýnu og fullkomna ferðafóstru með öllum búnaði til flutnings á veikum nýburum milli sjúkrahúsa svo eitthvað sé nefnt,“ segir Elma Rún Ingvarsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun við barnadeild SAk. „Við þurfum alltaf að vera viðbúin því að mjög veikt barn fæðist eða að eitthvað komi upp á og við vinnum í mikilli samvinnu við Vökudeild LSH. Hins vegar er staðan þannig að við þurfum að fara að endurnýja sum tækin okkar þarna og það kostar fjármagn eins og annað,“ segir Elma Rún.

Eina hágæsla nýbura fyrir utan vökudeild Landsspítalans

Fyrirburi er barn sem fæðist fyrir fullar 37 vikur meðgöngu. Ástæður fyrirburafæðinga eru ekki alltaf þekktar en það getur verið að móðir sé veik með meðgöngueitrun, legháls getur gefið eftir, sýking verið í fósturbelg eða að um fjölburafæðingu sé að ræða. Á barnadeild SAk er tekið við börnum sem fædd eru eftir 34 vikna meðgöngu en ef fyrirsjáanlegt er að barn fæðist fyrir þann tíma er það sent í móðurkviði, þ.e. móðir send á LSH til að fæða barnið þar.

Árlega fæðast um 35 – 65 nýburar á SAk sem þurfa leggjast inn á hágæslu barnadeildar. Ólíkt því sem margt fólk heldur þá þurfa fyrirburar yfirleitt ekki endurlífgun við fæðingu heldur fyrst og fremst stuðning til að aðlagast lífinu eftir fæðingu. Þeir þurfa aðstoð við að halda hita, nærast og stundum öndunarstuðning. Foreldrar þeirra þurfa einnig stuðning og nærveru. Á barnadeildinni fá þeir aðstoð við að sinna barninu sínu og þurfa oft að læra nýja tækni eins og að gefa í sondu, vera í hátækniumhverfi og fara stundum heim með aukabúnað eins og sondu og öndunarmónitor.

Hitakassi

„Lífslíkur fyrirbura á Íslandi eru mjög miklar. Það er auðvitað þannig að því lengur sem barn er í móðurkviði þeim mun betra og þar af leiðandi eru meiri líkur á að allt gangi vel. Barn sem er t.d. fætt eftir 32 vikur glímir yfirleitt ekki við mörg vandamál en það er töluvert lengri lega og meira sem getur komið upp á ef barnið fæðist eftir 24 vikna meðgöngu,“ segir Elma Rún.

Aðstaðan á SAk mjög góð fyrir fyrirbura og foreldra

Barnadeildin sinnir einnig fyrirburum sem fæðst hafa í Reykjavík fyrir 34. viku og dvalið á Vökudeild LSH fyrstu daga lífsins en eru búsett hér á svæðinu. Þá koma þau á SAk í svokallaða „vaxtarrækt". Þar fær barnið og foreldrar stuðning og hjúkrun meðan barnið vex og dafnar. Stundum er barnið í mónitor, með sondu og að læra að nærast sjálft.

„Þegar börn komast á það stig að vera í svokallaðri „vaxtarrækt" fara þau inn á legustofu á gangi með foreldrum sínum. Þar er mjög góð aðstaða fyrir foreldra til að vera saman sem fjölskylda með barninu sínu og geta sinnt því í sameiningu með okkar aðstoð. Þetta á bæði við um þau börn sem fæðast hér og byrja inni á vökustofu hjá okkur og þau börn sem koma að sunnan til að klára leguna hér,“ segir Elma Rún.

Vagga

Á deildinni vinnur einn sérfræðingur í barnahjúkrun sem er sérmenntaður í hjúkrun nýbura og annar sem er í framhaldsnámi á því sviði. Báðir hafa unnið á Vökudeild LSH með störfum sínum á SAk og hafa því góða tengingu við deildina. „Svo erum við einnig með ýmsa aðila hér innanhúss okkur til stuðnings og aðstoðar fyrir foreldra. Ljósmæður koma og aðstoða mæður við t.d. brjóstagjöf og ýmislegt tengt móðurinni sjálfri, félagsráðgjafar ræða við foreldra og fara yfir réttindi þeirra, allt eftir þörfum fjölskyldunnar,“ segir Elma Rún.

Foreldrar lofa persónulega þjónustu á barnadeildinni

„Við fáum yfirleitt góða umsögn frá foreldrum, þeim finnst þeir fá persónulega þjónustu þar sem deildin er lítil og fáir starfsmenn sem koma að fjölskyldunni. Það að geta boðið fjölskyldum upp á herbergi í „vaxtarrækt“ þar sem barn og foreldrar geta verið saman finnst fólki líka gott og einnig að eiga kost á að vera í heimabyggð. Vissulega verður að taka það með í reikninginn að þetta er oft afar erfiður tími fyrir foreldra, þetta geta verið margar vikur sem þau þurfa að dvelja á sjúkrahúsi, jafnvel einhverjar áður en barnið fæðist þar sem móðir hefur verið veik á meðgöngu og svo ef barnið fæðist mörgum vikum fyrir tímann,“ segir Elma Rún að lokum.

Nánari upplýsingar um fyrirbura má finna hér.