Starfsemistölur fyrir janúar - október 2024
12. nóvember 2024
Færri ferðamenn sem koma á SAk.
Fjöldi dvalardaga á tímabilinu janúar til október voru 21.768 sem er um 14% fækkun frá því í fyrra en að sama skapi er fækkun sjúklinga sem þurfa að leggjast inn um 11%. Meðalfjöldi dvalardaga allra deilda eru 4,4 dagar þannig að sjúklingar liggja mun styttra inni en áður.
Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn en þær eru um76,5% af heildarinnlögnum.
Að meðaltali eru um 10 sjúklingar inniliggjandi á hverjum tíma sem eru með gilt færni- og heilsumat eða slíkt í vinnslu.
Ef horft er til rúmanýtingar deilda þá er lyflækningadeild með 85% nýting yfir árið á lyflækninga- og skurðlækningadeild.
Rúmlega 9.400 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 1.934 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 1.876 á sama tíma í fyrra og er stöðug aukning í þeirri þjónustu.
Á bráðamóttöku og göngudeild bráðamóttöku er fjöldi samskipta sambærilegur og í fyrra eða 14.910 samanborið við 15.116 á sama tíma í fyrra (sjá graf um komur á bráðamóttöku janúar til október ár hvert). Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er nú um 45 mínútur en viðmið okkar eru um 40 mínútna bið eftir lækni.
Fjöldi skurðaðgerða janúar til október voru 1.995 sem er aðeins minna en í fyrra þegar 2186 aðgerðir voru gerðar yfir sama tímabil - fjöldinn segir ekki allt þar sem eðli og lengd aðgerða hefur mikið að segja. Rúmlega 33% aðgerða voru bráðaaðgerðir og voru gerviliðaaðgerðir 258 á móti 273 gerviliðaaðgerðum í fyrra.
Fjöldi myndgreiningarannsókna (án brjóstamynda) var rúmlega 34.000 og gerir það að meðaltali um 112 rannsóknir á dag sem er sambærilegt og verið hefur.
Rannsóknir á rannsóknadeild hafa dregist aðeins saman undanfarin ár (sjá súlurit) en fjöldi rannsókna á lífeðlisfræðideild er sambærilegur og verið hefur undanfarin ár eða um 6.500 lífeðlisfræðiverk.
Í ár hafa fæðst 327 börn samanborið við 350 börn á sama tíma í fyrra.
Töluverð fækkun er í komum og innnlögnum ósjúkratryggðra miðað við sama tímabil í fyrra. Bráðamóttakan hefur sinnt 650 ósjúkratryggðum einstaklingum og 100 hafa verið á legudeildum SAk en í fyrra höfðu verið lagðir inn 117 einstaklingar og um 730 einstaklingar leitað á bráðamóttökuna. Um er að ræða 12% fækkun í komum á bráðamóttöku.