Sjúkraflutningaskólinn sinnir öflugri fræðslu fyrir viðbragðsaðila
24. júní 2025
Sjúkraflutningaskólinn gegnir lykilhlutverki í menntun sjúkraflutningamanna og annarra viðbragðsaðila á Íslandi. Skólinn býður upp á sérhæfða fræðslu í bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og hefur markvisst byggt upp námsframboð sem nær til viðbragðsaðila um land allt.

Í boði eru bæði grunn- og framhaldsnám í sjúkraflutningum – svokallað EMT- og AEMT-nám – sem veitir nemendum bæði starfsréttindi og aukna sérhæfingu í bráðaþjónustu. Námið byggir á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum, meðal annars frá bandarísku stofnuninni National Highway Traffic Safety Administration (NHTSA), og er kennt bæði í stað- og fjarnámi. Verklegar lotur hafa verið haldnar víðs vegar um landið, m.a. í Reykjavík, Akureyri, Sandgerði, Ísafirði og Fáskrúðsfirði, með blöndu af bóklegum og verklegum þáttum.
Fjölbreytt námsframboð
Auk náms fyrir sjúkraflutningamenn býður skólinn upp á vettvangshjálparnámskeið (EMR) fyrir lögreglu, slökkvilið, björgunarsveitir og öryggisfyrirtæki. Til dæmis sækja allir lögreglunemar í landinu 40 klukkustunda vettvangsnámskeið í gegnum samstarf Sjúkraflutningaskólans og Háskólans á Akureyri. Þá eru einnig boðin fjölbreytt endurmenntunar- og sérnámskeið, m.a. í sérhæfðri endurlífgun barna og fullorðinna (EPILS, ALS og ILS) fyrir heilbrigðisstofnanir víða um land.
Starfsemi skólans hefur verið stöðug síðustu ár og byggist á traustu samstarfi við heilbrigðisstofnanir, slökkvilið, neyðarþjónustur og aðra lykilaðila. Meðal samstarfsaðila eru Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Neyðarlínan og slökkvilið víða um land. Þessir aðilar veita mikilvægan stuðning við framkvæmd námskeiða, starfsþjálfun og verklega kennslu.
Fyrirhugaðar breytingar
Í kjölfar stefnumótunar í sjúkraflutningum til ársins 2030 hefur verið lagt til að menntun sjúkraflutningamanna færist yfir í almenna skólakerfið, á sama hátt og gildir um aðrar heilbrigðisstéttir. Sú vinna er þegar hafin, en útfærsla hennar og innleiðing krefst náins samráðs og skýrra hlutverka milli Sjúkraflutningaskólans og menntakerfisins. Gert er ráð fyrir að verkefnið skili niðurstöðum haustið 2025.
Sjúkraflutningaskólinn leggur áfram áherslu á að tryggja nemendum aðgengilegt og vandað nám sem tekur mið af þörfum samfélagsins og þróun bráðaþjónustu um allt land.