Seigla í heilbrigðiskerfinu byggist á mannúð og festu
30. desember 2025
Nýverið birtist viðtal við forstjóra SAk í ritinu Healthcare and Life Sciences 2025 - Year in review. Hér er íslensk samantekt úr viðtalinu sem á vel við á þeim tímamótum sem áramótin eru.

Hvaða lykilþættir eða þróun hafa haft mest áhrif á ykkar hluta heilbrigðiskerfisins á síðasta ári?
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri hefur síðasta ár mótast af sambærilegum áskorunum og víða annars staðar í heilbrigðisgeiranum. Skortur á starfsfólki, flóknari sjúklingahópar og áskoranir við að viðhalda stöðugri þjónustu innan þröngs fjárhagsramma hafa haft áhrif á starfsemina. Sem sjúkrahús utan höfuðborgarsvæðisins upplifum við sérstaklega hversu viðkvæmt jafnvægið er milli þess að tryggja aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og að halda í og laða að hæft starfsfólk.
Hvernig eru stofnanir að vega og meta nýsköpun í gervigreind og fjárhagslega sjálfbærni samhliða áframhaldandi áskorunum er varða mönnun og rekstur?
Það er nauðsynlegt að veita markvissa heilbrigðisþjónustu. Forgangsraða þarf þeim nýjungum sem geta dregið úr álagi, bætt flæði sjúklinga og stutt við starfsfólk. Á sama tíma þarf meiri tíma og mannafla til að innleiða margar þessara lausna með fullnægjandi hætti. Leiðarljósið við allar slíkar fjárfestingar eru einfaldar spurningar: Sparar þetta tíma? Styður þetta við starfsfólk? Dregur þetta úr kostnaði?
Hvaða þættir er varða leiðtogafærni höfðu mest áhrif á frammistöðu eða umbreytingu á árinu?
Það hefur orðið skýrara en nokkru sinni fyrr að stöðugleiki og sterk fagþekking meðal stjórnenda skiptir sköpum. Klínískir leiðtogar sem bera mesta ábyrgð á daglegum rekstri þurfa að fá stuðning og svigrúm til að leiða starfsemina svo árangur náist. Þegar álagið verður of mikið hefur það hins vegar áhrif bæði á stjórnun og starfsanda, en álag og veikindi hafa haft veruleg áhrif á árinu sem er að líða.
Hvaða meginstefnur eða breytingar innan heilbrigðisgeirans telur þú að muni móta forystu og ákvarðanir árið 2026?
Þegar horft er til ársins 2026 mun þurfa að halda áfram að efla teymisvinnu þvert á faggreinar, innleiða stafrænar lausnir sem raunverulega draga úr álagi og leggja áherslu á sveigjanlega þjónustu. Við forgangsröðun á nýtingu fjármagns þarf að horfa til álags á starfsólk, aðgengi og þróun þjónustu.
Hvaða leiðtogahæfni verður lykilatriði fyrir seiglu og vöxt heilbrigðiskerfisins á komandi árum?
Þær hæfniskröfur sem gerðar eru til leiðtoga eru skýrar. Þörf er á leiðtogum sem hlusta, eiga heiðarleg og opin samskipti og taka erfiðar ákvarðanir á sama tíma og þeir hlúa að mannauðnum. Seigla byggist á teymum sem treysta hvert öðru og leiðtogum sem sameina festu og mannúð.
Skýrsluna í heild sinni má sjá hér: https://c-suitepartners.com/c-suite-partners-healthcare-and-life-sciences-2025-year-in-review/