Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

SAk tekur stökk um 6 sæti í Stofnun ársins á milli ára

20. mars 2024

Ímynd SAk er á góðri leið og mælist rétt undir meðallagi þátttakandi stofnanna og ívið betri en á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Loftmynd af SAk

Stofnun ársins er starfsumhverfiskönnun á vegum Fjármála- og efnahagsráðuneytisins í umsjón Gallup. Tilgangur hennar er að styrkja starfsumhverfi starfsfólks í opinberri þjónustu. Könnunin veitir ítarlegar upplýsingar um stöðu mála. Framkvæmdartími var október - desember 2023 og tóku rúmlega 20.000 manns þátt í rúmlega 200 stofnunum. Niðurstöður byggjast á svörum tæplega 10.900 svarenda, svarhlutfallið á Sjúkrahúsinu á Akureyri var 44% og svarhlutfall í heild 55%.

Sjúkrahúsið á Akureyri tekur stökk um 6 sæti uppávið í heildina og vermir 128 sætið í heildaránægju. Ímynd SAk er á góðri leið og mælist rétt undir meðallagi þátttakandi stofnanna og ívið betri en á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Bætt staða frá fyrra ári

Í öllum meginþáttum er SAk að bæta stöðuna frá árinu áður. Þessir þættir eru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, ímynd stofnunar, sjálfstæði í starfi, ánægja og stolt og jafnrétti. Þeir þættir sem hækka einna mest eru launakjör og sveigjanleiki vinnu og er það í takt við áherslur verkefna um betri vinnutíma, styttingu vinnuvikunnar og samræmingu launa ákveðinna stofnanasamninga, einnig var unnið að jöfnun launa milli kynja.

Álag var talsvert mikið á SAk á síðasta ári og þá hefur stofnunin verið að kljást við þónokkra manneklu. Niðurstöður könnunarinnar staðfesta þetta. Streita og of mikið álag er hærra á SAk en hjá öðrum heilbrigðisstofnunum.

„Það er þó áhugavert að sjá að þrátt fyrir þessar niðurstöður er starfsandinn á SAk ívið betri en á öðrum heilbrigðisstofnunum,“ segir Erla Björnsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs. „Í síðustu könnun náðum við sögulegri lægð. Því var sett af stað aðgerðaráætlun á síðasta ári til að bæta starfsumhverfið því okkur er það mjög mikilvægt að starfsfólki líði vel í vinnunni,“ segir Erla.

Aðgerðaráætlun að skila árangri

Átakið Komdu í lið með okkur! var liður í þeirri aðgerðaráætlun og hafði það markmið að bæta ímynd SAk með margskonar verkefnum svo sem gerð kynningarmyndbanda um starfið á SAk, faglegra ljósmynda í starfsauglýsingum og markvissar kynningar fyrir heilbrigðisvísindanema.

„Velferðartorgið hefur einnig haft sitt að segja sem stuðningur við starfsfólk. Þar gefst starfsfólki tækifæri til að bóka tíma hjá fjölbreyttum hóp sérfræðinga sem veita ýmis konar ráðgjöf og þjónustu. Allt starfsfólk fær 3 tíma sér að kostnaðarlausu og við finnum fyrir miklum áhuga og nýtingu á þessari þjónustu,“ segir Erla.

Til eflingar innri starfsemi var lyfjaþjónusta efld, sett var á laggirnar miðlæg aðstoð þvert á deildir og þá hefur stuðningur við stjórnendur verið stóraukinn. „Það má því með sanni segja að aðgerðaráætlunin hafi skilað okkur þeim árangri sem við sjáum í þessum niðurstöðum,“ segir Erla.

Áfram verður unnið með aðgerðaráætlunina hvað varðar ímynd og innviði SAk. Til stendur að efla upplýsingagjöf og miðlun upplýsinga til stjórnenda og starfsfólks og innleitt verður tól sem gefur stjórnendum betri heildarmynd af líðan starfsfólks til að vinna að aukinni starfsánægju á vinnustaðnum.

„Mönnun, mönnun og aftur mönnun er okkur efst í huga enda hefur veikindahlutfall stóraukist eftir Covid. Þetta er gríðarleg áskorun hjá öllum heilbrigðisstofnunum,“ segir Erla að lokum.