Ráðstefnan Hjúkrun 2025 á Akureyri
26. september 2025
Ráðstefnan Hjúkrun 2025 hófst á Akureyri í gær og lýkur í dag. Ráðstefnan er á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ráðstefnan Hjúkrun 2025 hófst á Akureyri í gær og lýkur í dag. Ráðstefnan er á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
„Á ráðstefnunni gefst hjúkrunarfræðingum dýrmætt tækifæri til að hittast, miðla reynslu og fræðast um nýjustu rannsóknir og þróun á sviði hjúkrunar. Sterkt fræðasamfélag hjúkrunar á Íslandi er vitnisburður um eldmóð og fagmennsku hjúkrunar[1]fræðinga, sem ávallt leitast við að efla þekkingu sína og hæfni.“ Segir Helga Pálmadóttir, formaður undirbúningsnefndar.
Fulltrúar SAk á ráðstefnunni eru fjölmargir, en lesa má nánar um þeirra innlegg og rannsóknir í ráðstefnuriti sem nálgast má hér: Hjúkrun 2025 – Ráðstefnurit
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, flutti eftirfarandi ávarp við opnun ráðstefnunnar í gær:
Kæru hjúkrunarfræðingar.
Það er mér bæði sönn ánægja og ákveðin forréttindi að fá að standa hér í dag – annars vegar sem forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri og hins vegar sem hjúkrunarfræðingur að uppruna.
Ég ákvað aðeins 8 ára gömul að verða hjúkrunarfræðingur – eins og mamma og ég stóð við það.
Ég fór í Háskólann á Akureyri, hóf minn starfsferil í hjúkrun og sá framtíðina fyrir mér á bráðamóttökunni hér á Akureyri. Það var gríðarlega lærdómsríkt að starfa þar. Mér þótti starfið bæði gefandi og skemmtilegt – og sú reynsla er mér enn dýrmæt. Leið mín lá þó fljótlega yfir í stjórnun, þar sem ég hef starfað í rúm 20 ár.
Reynslan sem hjúkrunarfræðingur hefur hins vegar veitt mér góða innsýn í hinn klíníska veruleika og hún hefur reynst mér ómetanleg sem stjórnanda í heilbrigðisþjónustu. Hún minnir mig á það á hverjum degi að á bak við hverja töflu, hverja skýrslu og hverja fjárhagslega ákvörðun er manneskja – sjúklingur sem treystir á okkur, og hjúkrunarfræðingur sem stendur við hlið hans.
Þegar ég hugsa til baka man ég vel að stærsti styrkur hjúkrunar lá í samstarfinu – eða teymisvinnunni eins og við köllum hana í dag. Hjúkrun er aldrei einmanalegt starf – hún byggir á samvinnu, hvort sem er með læknum, sjúkraliðum, öðru heilbrigðisstarfsfólki, sjúklingum sjálfum eða fjölskyldum þeirra. Það markaði mig að sjá hvernig gott samstarf og samkennd gátu breytt líðan sjúklinga. Sú reynsla hefur fylgt mér alla tíð - líka inn í stjórnunarhlutverkið.
Við vitum öll að hjúkrun er ekki bara starf.
Hún er grunnstoð heilbrigðiskerfisins, hjarta og lífæð þjónustunnar. Þið haldið utan um sjúklinginn frá fyrstu stundu og allt til loka – og í því felst bæði fagleg þekking og mannleg nánd sem enginn annar hópur getur leyst með sama hætti.
Það sem einkennir hjúkrunarfræðinga er fjölhæfni. Þið getið svo margt – oft meira en þið gerið ykkur grein fyrir.
Þið eruð ekki aðeins:
klínískir sérfræðingar,
heldur líka leiðbeinendur.
hughreystendur,
hvatamenn
og jafnvel frumkvöðlar.
Þið starfið víða:
á legudeildum,
á bráðamóttökum,
í heilsugæslu,
í stjórnun,
í kennslu og í rannsóknum.
Alls staðar setjið þið fagmennsku og mannúð í forgang. Það er þessi fjölbreytni sem gerir hjúkrun ómetanlega fyrir sjúklinga og samfélag. Hjúkrunarfræðingar eru með öðrum orðum alls staðar þar sem heilsa og lífsgæði fólks skipta máli. Þannig er stéttin bæði burðarás heilbrigðiskerfisins og mikilvæg rödd í samfélagslegri umræðu um heilbrigði.
Við vitum líka að síðustu ár hafa verið þung. Álagið hefur verið mikið – og allt bendir til að áfram verði krafist mikils af okkur öllum. Þrátt fyrir það mætið þið á hverjum degi, fagleg, einbeitt og tilbúin til að sinna þeim sem á ykkur reiða sig. Það er seigla sem á sér fáar hliðstæður. En við verðum líka að horfast í augu við að slíkt álag er ekki sjálfbært.
Þess vegna er það okkar sameiginlega verkefni að vinna að skynsamlegum mönnunarviðmiðum. Og eins og fram kom í pistli formanns félagsins þarf að setja verkefnið í forgang – með það að leiðarljósi að heilbrigðisstofnanir fái bæði fjármagn og heimildir til að ráða út frá faglegum forsendum. Aðeins þannig geta hjúkrunarfræðingar sinnt starfi sínu af heilindum – án þess að það bitni á eigin heilsu eða líðan.
Við vitum jafnframt að enginn getur gefið endalaust án þess að fá stuðning. Kulnun er raunveruleg hætta í okkar stétt og við verðum að taka hana alvarlega. Að stuðla að vellíðan hjúkrunarfræðinga er ekki munaður – það er forsenda öruggrar þjónustu við sjúklinga. Þetta er ekki bara fagleg krafa heldur einnig siðferðisleg skylda. Góður aðbúnaður starfsfólks þýðir betri þjónusta við sjúklinga. Hjúkrun er lykillinn að öruggri, góðri og heildrænni þjónustu. Án öflugrar hjúkrunar er ekkert heilbrigðiskerfi traust.
Framtíðin er í okkar höndum. Þið sem hér sitjið gegnið mikilvægu hlutverki í að móta næstu kynslóð hjúkrunarfræðinga. Við þurfum að gera hjúkrun að aðlaðandi kosti fyrir ungt fólk – og við þurfum að standa saman um að leiðbeina og styðja þau sem stíga sín fyrstu skref. Þið sem hér sitjið eruð fyrirmyndir og mótið fagið með því hvernig þið starfið og hvernig þið takið á móti nýliðum. Þannig byggjum við upp sterka framtíð.
Hjúkrun er líka síbreytilegt fag. Við sjáum ný tækifæri með stafrænum lausnum, gervigreind og nýjum meðferðarformum. Hlutverk hjúkrunarfræðinga hefur aldrei verið fjölbreyttara og sú hæfni sem þið búið yfir gerir ykkur að lykilaðilum í þróun heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.
Við erum ekki ein í þessum áskorunum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við hjúkrunarskorti um allan heim. Það er áminning um að þessi barátta – um mannskap, viðurkenningu og aðstæður – er ekki bundin við Ísland. Við erum hluti af stærri mynd og við getum bæði lært af reynslu annarra landa og deilt okkar eigin.
En á sama tíma og við þróumst áfram megum við aldrei missa sjónar á kjarnanum. Hjúkrun byggist á mannlegri umhyggju, á því að sjá sjúklinginn sem manneskju og mæta honum af virðingu og hlýju. Þetta er og verður alltaf hjartað í faginu – og það sem gerir hjúkrun ómissandi.
Ég vil nota þetta tækifæri til að segja einfaldlega: takk.
Takk fyrir fagmennsku og dugnað
Takk fyrir að standa vaktina í erfiðum aðstæðum.
Takk fyrir brosið - jafnvel þótt dagurinn hafi verið langur.
Takk fyrir að vera rödd þeirra sem ekki geta tjáð sig sjálfir.
Og takk fyrir að láta hjúkrunina dafna – þrátt fyrir áskoranir.
Framtíðin verður krefjandi – en hún er líka full af tækifærum. Með styrk ykkar, fagmennsku og mannúð getum við ekki aðeins tekist á við verkefnin fram undan, heldur líka skapað betra, sanngjarnara og öflugra heilbrigðiskerfi. Sameinuð getum við byggt framtíðina.
Kæru hjúkrunarfræðingar – Þið eruð ekki aðeins mikilvæg – þið eruð ómissandi.
Kærar þakkir – og megi þessi ráðstefna verða okkur öllum innblástur til að halda áfram að gera gott starf saman.