Ráðningar tengdar breytingum á stjórnskipulagi.
25. júlí 2023
Í framhaldi af innleiðingu nýs stjórnskipulags sem kynnt var í vor auglýsti Sjúkrahúsið á Akureyri stöður framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu, framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og stöðu fjármálastjóra. Ráðningarstofan Mögnum fór með ráðgjöf og úrvinnslu ráðninganna fyrir hönd sjúkrahússins.
Í framhaldi af innleiðingu nýs stjórnskipulags sem kynnt var í vor auglýsti Sjúkrahúsið á Akureyri stöður framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu, framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og stöðu fjármálastjóra. Ráðningarstofan Mögnum fór með ráðgjöf og úrvinnslu ráðninganna fyrir hönd sjúkrahússins.
Áður hefur verið gengið frá ráðningum í stöður fjármálastjóra og framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og nú hefur einnig verið ráðið í stöður framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu.
Ragnheiður Halldórsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra lækninga. Ragnheiður er menntaður læknir með sérhæfingu á sviði lyflækninga og öldrunarlækninga og hefur hún starfað sem læknir frá árinu 1999. Ragnheiður hefur verið starfandi framkvæmdastjóri lyflækningasviðs á SAk frá hausti 2021 ásamt því að hafa verið staðgengill framkvæmdastjóra lækninga frá árinu 2019. Ragnheiður hefur verið starfandi sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum á SAk frá árinu 2008 sem og sem yfirlæknir á Öldrunarheimilum Akureyrar, nú Heilsuvernd frá árinu 2016. Samhliða störfum sínum sem læknir hefur Ragnheiður m.a. sinnt kennslu við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri.
Helgi Þór Leifsson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu. Helgi Þór er menntaður skurðlæknir ásamt því að hafa lokið meistaranámi í heilbrigðisvísindum, stjórnun í heilbrigðisþjónustu. Helgi Þór er starfandi skurðlæknir á SAk ásamt því að vera staðgengill forstöðulæknis skurðlækninga. Helgi Þór stundaði nám í skurðlækningum í Kristianstad í Svíðþjóð og starfaði þar sem sérfræðingur þar til hann kom til starfa á SAk. Helgi Þór hefur komið að kennslu læknanema á SAk og hlotið m.a. viðurkenningu sem framúrskarandi kennari læknanema í klínískri kennslu.
Ragnheiður og Helgi Þór eru boðin velkomin í nýjar stöður á sjúkrahúsinu og þeim óskað velfarnaðar í starfi um leið og fráfarandi framkvæmdastjóra lyflækningasviðs og framkvæmdastjóra lækninga eru þökkuð vel unnin störf.