Fara beint í efnið

Ráðningar tengdar breytingum á stjórnskipulagi

20. júlí 2023

Í framhaldi af innleiðingu nýs stjórnskipulags sem kynnt var í vor auglýsti Sjúkrahúsið á Akureyri stöður framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu, framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og stöðu fjármálastjóra. Ráðningarstofan Mögnum fer með ráðgjöf og úrvinnslu ráðninganna fyrir hönd sjúkrahússins.

SAk merkið

Nú hefur verið gengið frá ráðningum í stöður fjármálastjóra og framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu.

Guðbjartur Ellert Jónsson hefur verið ráðinn í stöðu fjármálastjóra. Guðbjartur er með BSc gráðu í viðskiptafræði auk þess að hafa lokið stórum hluta meistaranáms í opinberri stjórnsýslu. Hann hefur áralanga starfsreynslu sem fjármálastjóri hjá Norðurþingi og sem framkvæmdastjóri hjá Norðursiglingu og Herjólfi. Hann hefur einnig reynslu sem verkefnastjóri á hag- og upplýsingasviði Landspítalans og hefur setið í samnorrænni verkefnastjórn sem vann að uppbyggingu DRG kerfisins á norðurlöndunum. Í núverandi starfi sinnir Guðbjartur sérfræðiverkefnum á endurskoðunar- og stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar og hefur m.a. sinnt þar úttektum og greiningum á ýmsum stofnunum þ.m.t. Landspítalanum.

Guðbjartur Ellert Jónsson

Konráð Gylfason hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu. Konráð er með BSc í viðskiptafræði. MLM gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun auk þess að hafa meistararéttindi í blikksmíði og viðbótardiplómu á meistarastigi í kennslufræðum. Hann hefur áralanga reynslu af rekstri, stjórnun, stýringu og ábyrgð framkvæmda- og viðhaldsverkefna sem og aðkomu að innkaupum, útboðum og samningagerð. Í rúman áratug var Konráð framkvæmdastjóri Formvéla og Blikksmiðju Gylfa og svo sem ábyrgðarmaður sölu og innflutnings. Frá árinu 2016 hefur Konráð verið framkvæmdastjóri Íshokkísambands Íslands og sinnt þar rekstri, stefnumótun og uppbyggingu sambandsins og aðildarfélaga í samstarfi við marga hagsmunahópa. Einnig hefur Konráð verið virkur í ýmsum félags – og sjálfboðaliðastörfum.

Gömul mynd - Konráð Gylfason

Guðbjartur og Konráð eru boðnir velkomnir og þeim óskað velfarnaðar í starfi og fráfarandi framkvæmdastjóra rekstrar og fjármála þakkað fyrir vel unnin störf.

Ráðning framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu og framkvæmdastjóra lækninga er á lokametrum og ætti að skýrast innan skamms.