Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Nýtt krabbameinsráð

5. nóvember 2025

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur sett á fót krabbameinsráð sem gegna mun hlutverki samráðsvettvangs um framkvæmd krabbameinsáætlunar. Skipun ráðsins er liður í aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum.

Í áætluninni eru tilgreindar 16 aðgerðir stjórnvalda til að mæta aukinni tíðni krabbameina á næstu árum og áratugum, ásamt því að viðhalda gæðum og árangri þjónustunnar og tryggja aðgengi að henni. Hlutverk krabbameinsráðs felst í því að hafa yfirsýn yfir árangur af aðgerðum krabbameinsáætlunar og vera heilbrigðisráðherra til ráðgjafar. Einnig að gera tillögur að verkaskiptingu þeirra sem veita krabbameinsþjónustu á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar út frá greiningu á fyrirkomulagi þjónustunnar eins og hún er nú. Enn fremur að benda á tækifæri til samvinnu og umbóta, fylgjast með framþróun innan málaflokksins og koma með tillögur að breytingum þar að lútandi.

Friðbjörn R. Sigurðsson fulltrúi SAk í krabbameinsráði

Krabbameinsráð er svo skipað: Formaður ráðsins er Halla Þorvaldsdóttir, skipuð af ráðherra án tilnefningar. Aðrir sem þar eiga sæti eru Agnes Smáradóttir, tilnefnd af Landspítala, Friðbjörn R. Sigurðsson, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri, Helgi Hafsteinn Helgason, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, María Heimisdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis og Sólveig Ása Tryggvadóttir, tilnefnd af Krafti.

Sjá nánar hér: Krabbameinsráð sett á fót