Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Nýr röntgenlæknir ráðinn til starfa

1. september 2025

​Sjúkrahúsið á Akureyri hefur ráðið Cristian M. Arriagada Godoy röntgenlækni til starfa. Hann mun hefja störf um miðjan september og verður fastráðinn í hóp okkar fagfólks.

Hann mun hefja störf um miðjan september og verður fastráðinn í hóp okkar fagfólks. Cristian er læknir frá Síle að uppruna en flutti til Spánar þar sem hann lauk bæði sérnámi í röntgenlækningum og doktorsnámi. Hann hefur haft full réttindi í ífarandi aðgerðum (interventional procedures) frá Evrópska röntgenlæknafélaginu (European Board) frá árinu 2015 og býr yfir rúmlega tíu ára reynslu af akademísku og klínísku starfi á háskólasjúkrahúsum og í háskólum.

„Ég hef sérstakan áhuga á beinum samskiptum við sjúklinga, myndstýrðum aðgerðum og klínísku starfi. Ég nýt þess einnig að starfa í þverfaglegum teymum, styðja við kandídata og nemendur og taka þátt í rannsóknum og fræðslu,“ segir Cristian.

Þekking hans nær yfir breitt svið æða- og óæðaaðgerða, þar á meðal æðaaðgerðir vegna blóðskilunar, þvagfæraskurðlækningar, meltingarfærasvið og fleiri sérgreinar.

„Ég hlakka til að hefja störf á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Fyrir mér skiptir miklu máli að vinna í öflugu og samstilltu teymi þar sem jafnvægi ríkir á milli faglegs metnaðar og persónulegs lífs. Ég er sannfærður um að hér geti ég bæði lagt mitt af mörkum og vaxið sem læknir,“ bætir hann við.

Ráðning Cristians er mikilvæg viðbót við starfsemi myndgreiningardeildar og styrkir bæði þjónustu og faglega getu deildarinnar til framtíðar. Við hlökkum til samstarfsins og bjóðum Cristian hjartanlega velkominn í hópinn á Sjúkrahúsinu á Akureyri.