Nýir læknar til starfa á Kristnesspítala
2. september 2024
Kristrún Erla Sigurðardóttir sérfræðingur í heimilislækningum og Valgerður Þorsteinsdóttir sérfræðingur í öldrunarlækningum hafa verið ráðnar til starfa innan öldrunarlækningateymis SAk á Kristnesspítala.
Kristrún er Siglfirðingur og stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún útskrifaðist 2013 úr læknisfræði við Háskóla Íslands og nam síðan heimilislækningar bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Kristrún hlaut sérfræðiréttindi árið 2021 og hefur starfað sem heimilislæknir á HSN á Akureyri síðan þá.
Valgerður ólst upp á Akureyri og stundaði nám í læknisfræði við Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist árið 2013. Valgerður lauk sérnámi í öldrunarlækningum í Lundi árið 2022 og hefur síðan starfað á öldrunarlækningadeild í Malmö og á líknardeild LSH.
„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Kristrúnu og Valgerði í okkar lið og getum þannig haldið áfram að byggja upp enn betri þjónustu með þarfir skjólstæðinga okkar í fyrirrúmi á Kristnesspítala,“ segir Kristín Margrét Gylfadóttir, þjónustustjóri endurhæfinga- og öldrunarlækningaþjónustu SAk.
Um Kristnes:
Á Kristnesspítala fara fram endurhæfinga- og öldrunarlækningar Sjúkrahússins á Akureyri. Þar er einnig útibú frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Kristnesspítali var tekinn í notkun 1927 og þá sem berklahæli.
Kristnesspítali er staðsettur 10 km sunnan Akureyrar, í Eyjafjarðarsveit.