Nýbirt grein - Þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna við upphaf meðgöngu á Norðurlandi árin 2004-2022
10. apríl 2024
Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er að finna grein sem teymi á SAk vann að. Greinin varpar ljósi á þróun ofþyngdar og offitu meðal barnshafandi kvenna á Norðurlandi síðastliðin 19 ár.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að líkamsþyngd barnshafandi kvenna á Norðurlandi hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin 19 ár og eru nú 30% þeirra með offitu við upphaf meðgöngu. Hlutfall kvenna í kjörþyngd lækkaði um fjórðung, úr 53% í 40%. „Víða erlendis má sjá svipaða þróun en tölur frá Bandaríkjunum eru hvað líkastar okkar niðurstöðum,“ segir Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar sem er ábyrgðarmaður verkefnisins.
Orsakir offitu eru margþættar og flókið samspil umhverfis og erfða. Svefn, álag, áföll, heilsuhegðun eru til að mynda mikilvægir þættir í þessu sambandi. Meðgöngukvillar og frávik í fæðingu eru algengari meðal kvenna með offitu og einnig eru börn þeirra líklegri til að þróa með sér offitu síðar á lífsleiðinni.
„Það er ákaflega mikilvægt að finna þær konur sem þurfa á meiri stuðningi að halda strax í upphafi meðgöngunnar. Mikilvægt er að takmarka áhættuþætti sem eru breytanlegir óháð þyngd, þannig vinnum við að forvörnum frá upphafi," segir Laufey.
Kamilla Dóra Jónsdóttir læknanemi er fyrsti höfundur greinarinnar en hún fékk styrk frá vísindasjóði Sjúkrahússins á Akureyri og Vísindasjóði Háskólans á Akureyri til að vinna að verkefninu. „Ferlið var allt mjög lærdómsríkt og afar góð fyrstu kynni af rannsóknarvinnu utan námsins þar sem ég fékk að æfa mig í flestum þáttum rannsóknarvinnu - allt frá textaskrifum að tölfræði og praktískum atriðum - en það var lykilatriði að vera með góðan stuðning í rannsóknarhópnum,“ segir Kamilla.
„Helsti styrkleiki rannsóknarinnar er að hún nær yfir mjög langt tímabil eða 19 ár, sömuleiðis er þýðið stórt en við vorum með upplýsingar um 7105 konur í heildina eða 88% af öllum konum sem fæddu á SAk á tímabilinu. Skráningar í fagrýnisgrunn fæðingadeildar SAk hafa verið staðlaðar og framkvæmdar af einungis yfirlækni og yfirljósmóður á sama máta á þessu tímabili. Þessar skráningar eru líka villuprófaðar á hverju ári við vinnslu ársskýrslu deildarinnar, þetta eru því einstök gögn sem við erum að vinna með,“ segir Laufey.
Kamilla er að ljúka læknisfræði við Háskólann í Árósum en hún tók þátt á rannsóknarþingi danskra læknanema (Kongres for Medicinsk Studenterforskning) sem haldið er árlega í mars. Þar komu saman um 100 læknanemar frá fjórum háskólum í Danmörku og kynntu rannsóknarvinnu sína. Kamilla kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á þinginu við góðar undirtektir.
Auk Kamillu og Laufeyjar eru aðrir meðhöfundar greinarinnar Alexander Kristinn Smárason, yfirlæknir fæðinga- og kvensjúkdómalækninga, Ingibjörg Jónsdóttir, deildarstjóri fæðingadeildar, Björn Gunnarsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum og Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild HÍ.
Hér má nálgast greinina: Þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna við upphaf meðgöngu á Norðurlandi árin 2004-2022 | 04. tbl. 110. árg. 2024 | Læknablaðið (laeknabladid.is)