Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Mönnun helsta áskorun eftir heimsfaraldur - segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins

19. september 2023

Um leið og afstaðinn heimsfaraldur hefur tekið mikinn toll af starfsfólki Sjúkrahússins á Akureyri er mikinn lærdóm að draga af tímabilinu og nýir möguleikar í þjónustunni hafa opnast. Þetta kom fram í ávarpi Hildigunnar Svavarsdóttur forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri á ársfundi fyrir starfsárið 2022 sem fram fór fyrr í dag.

Merki SAk
Rekstur og tölulegar upplýsingar

460 m.kr. rekstarhalli var leiðréttur árið 2022 og til viðbótar fékk sjúkrahúsið 270 m.kr. í núverandi rekstrargrunn. Áfram þarf þó að auka fjárframlög til að tryggja betur aðgengi og öruggari heilbrigðisþjónustu í samfélaginu.

Komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um 23% milli ára en á sama tíma fækkaði komum á göngudeild vegna samdráttar í ljósameðferð. Skurðaðgerðum fækkaði um 17% milli ára vegna skertrar þjónustu skurðstofu fyrstu mánuði ársins 2022 vegna manneklu og takmarkanir vegna heimsfaraldurs. Áfram var lögð áhersla á að stytta biðlista í gerviliðaaðgerðum í landinu en þó var fækkun í þeim á SAk vegna manneklu og skerðingar á skurðstofu. Enn er stöðug fjölgun í sjúkraflugi sem nam á 10%. Þess má geta að í 45% tilvika er læknir með í för og huga þarf að því að koma upp sér vaktalínu læknis í sjúkraflugi.

Legudagar voru á svipuðu reiki og árið áður en sjúklingum fjölgaði um 11% á milli ára.

Menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks innan SAk

Að meðaltali eru 14,3 nemar í heilbrigðisvísindum í starfsþjálfun á SAk í hverri viku. Einnig tekur SAk þátt í menntun sérnámsgrunnlækna og framhaldsmenntun sérnámslækna. Á sjúkrahúsinu er starfrækt hermisetur sem kemur sér mjög vel því mikilvægt er að efla samvinnu og færni mismunandi heilbrigðisstétta – sérstaklega með tilliti til skorts á sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki sem liggur eins og vofa yfir öllu heilbrigðiskerfinu.

Stefnumótun og stjórnskipulag

Á starfsárinu var farið af stað með vinnu við stefnumótun og á haustdögum hófst vinna við breytingar á stjórnskipulagi sem leiddi til þess að nú á haustdögum 2023 tók við ný framkvæmdastjórn SAk samkvæmt nýju stjórnskipulagi stofnunarinnar. „Í nýju stjórnskipulagi er lögð áhersla á teymisvinnu framkvæmdastjórnar og annarra stjórnenda og hef ég fulla trúa á því að þannig skapist betri tækifæri og möguleikar til að takast á við áskoranir í starfsemi og þróa hana saman með hagkvæmni og betri yfirsýn að leiðarljósi, sjúklingum og starfsfólki í hag,” segir Hildigunnur Svavarsdóttir.

„Við horfum björtum augum til framtíðar og viljum svo sannarlega nýta sóknartækifærin. En til að allt gangi upp þurfum við að treysta á enn betri skilning stjórnvalda á lögbundnu hlutverki Sjúkrahússins á Akureyri með tilliti til verkefna og fjármagns,“ segir Hildigunnur að lokum.