Mía – dúkkan sem eykur hugrekki
4. apríl 2024
Bókin Mía fær lyfjabrunn varð til þegar Þórunn Eva G. Pálsdóttir var að gera lokaverkefni sitt í sjúkraliðanámi vorið 2019.
Bókin fjallar um stelpu sem þarf lyfjabrunn enda fannst Þórunni vanta mikið upp á fræðslu fyrir börn sem fá lyfjabrunn.
Síðan þá hefur Míu verkefnið stækkað og út er komin önnur bók og dúkka með meiningu. Míu dúkkunni er ætlað að gefa langveikum börnum auka hugrekki í lífinu eins og segir á miða sem fylgir dúkkunni.
Sjúkrahúsið á Akureyri fékk afhentar um 20 Míu dúkkur og nú er búið að setja upp Míu límmiða á deildinni.
„Við erum alltaf þakklát að fá að taka þátt í verkefnum sem miða að því að minnka óöryggi barna hvað varðar heimsóknir á sjúkrahús. Míu dúkkan er frábær að því leitinu að hægt er að bæta á hana því sem verið er að vinna með hjá barninu eins og t.d. æðaleggi, lyfjabrunn, hnapp eða annað. Börn sem eiga við þannig áskoranir geta betur samsamað sig við dúkkuna“ segir Elma Rún Ingvarsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun á barnadeild SAk.