„Mannauðurinn er auðlind sem verður að hlúa að“
6. janúar 2026
Guðni Arnar Guðnason, sérfræðingur í lyf- og innkirtlalækningum, hefur verið ráðinn tímabundið sem forstöðulæknir lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri í fjarveru Guðjóns Kristjánssonar. Að hans sögn eru tækifærin mörg þegar kemur að frekari uppbyggingu lyflækninga á SAk en jafnframt áskoranir sem snúi fyrst og fremst að mönnun og að tryggja þekkingu til framtíðar.

„Það eru fjölmörg tækifæri til að byggja upp trausta og afburðagóða þjónustu í almennum lyflækningum og helstu undirsérgreinum lyflækninga, bæði á legudeild sem og í dag- og göngudeildarþjónustu.“
Á nýliðnu ári og nýbyrjuðu hafa bæst við eða eru að bætast við sérfræðiþjónusta í gigtlækningum, nýrnalækningum, innkirtlalækningum og nú síðast í lungnalækningum. Fyrir voru þegar sérfræðilæknar í hjarta-, smitsjúkdóma-, tauga-, meltingar-, krabbameins- og blóðlækningum. „Það eru tækifæri til að styrkja þessa þjónustu enn frekar, en jafnframt áskorun að viðhalda og tryggja að þessi þekking verði áfram til staðar.“
Bráðadagdeild og sterkari göngudeild
Guðni sér ýmis tækifæri til að þróa starfsemi lyflækningadeildar enn frekar. Þar nefnir hann meðal annars möguleika á að koma á fót bráðadagdeild. „Nefna má til dæmis bráðadagdeild þar sem koma mætti á fót uppvinnslu og meðferð sjúklinga með bráðavandamál sem annars myndu oftast þurfa að leggjast inn. Þannig mætti létta undir með legudeildinni og verkefnum hennar og jafnvel tryggja betri plássastöðu.“
Einnig telur hann mikla möguleika felast í uppbyggingu göngudeildar „Göngudeild sem gæti meðal annars sinnt sjúklingum sem þurfa eftirlit eftir útskrift af legudeild.“ Áskoranir snúi fyrst og fremst að mönnun. „Til að tryggja starfsemi göngudeildar allan ársins hring þarf að viðeigandi mönnun sérfræðilækna og sérnámslækna, sem hefur sem hefur því miður ekki verið tilfellið. Það er þó fagnaðarefni að læknir er kominn aftur til starfa á göngudeild innkirtla eftir nokkurra ára hlé og vinnur þar með góðu teymi hjúkrunarfræðinga og fleiri fagstétta. Eins eru starfrækt lungnateymi og nýrnateymi, svo eitthvað sé nefnt.“
Áhugaverð tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk á lyflækningadeild
Guðni telur að á lyflækningadeild séu áhugaverð tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk: „Sjúklingar sem liggja inni eru með fjölbreytileg og oft flókin vandamál sem krefjast breiðrar þekkingar og deildin býður upp á tækifæri til að viðhalda og þróa frekar hæfni og þekkingu heilbrigðisstarfsfólks. Einnig eru ríkuleg námstækifæri til staðar á deildinni, bæði fyrir lækna sem eru lengra og skemmra komnir í menntun sinni.“
Þá nefnir hann að á SAk séu tækifæri til að framkvæma rannsóknir sem krefjast innlagnar „Innlögn í rannsóknarskyni, til dæmis vegna þrálátra sykurfalla sem þarf að vinna frekar upp og krefst eftirlits starfsfólks á legudeild, getur verið torsótt á oft yfirfullum legudeildum Landspítalans.“ Þá nefnir hann tækifæri til aukins samstarfs við bæði Landspítala og heilsugæslu. „Það eru tækifæri til að efla enn frekar samstarf við Landspítala og einnig tækifæri til að styrkja samstarf við heilsugæslu og halda úti öflugri fræðslu- og ráðgjafarþjónustu.“
„Tryggja þarf góð kjör og starfsaðstæður“
Aðspurður um þær áskoranir sem hann telji að blasi við nefnir hann mönnun lækna og staðsetningu Sjúkrahússins á Akureyri: „Það er oftast erfiðara að tryggja læknamönnun á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Vaktir á landsbyggðarsjúkrahúsum eru oft og tíðum, en ekki alltaf, fleiri, þyngri og færri til að leita ráða hjá en á til dæmis Landspítalanum. Þá velur fólk gjarnan vinnustað þar sem það getur verið nálægt fjölskyldu og vinum og þar sem það ólst sjálft upp. Það hallar því oft á landsbyggðina í þessum efnum. Góð mönnun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks á Sjúkrahúsinu á Akureyri snýst því að miklu leyti um að tryggja góð kjör og starfsaðstæður. Það hefur ríkt ákveðin óvissa varðandi launamálin en það er í gangi vinna hjá starfshópi, skipuðum af forstjóra, sem leitar leiða til að skapa forsendur til að efla og svo viðhalda góðri mönnun lækna. Mannauðurinn er auðlind sem verður að hlúa að. Það þarf minna til að molna undan starfseminni þegar færri vinna verkin og því gríðarlega mikilvægt að tryggja góða mönnun. Góð samvinna við stjórnvöld og sveitarfélagið skiptir og miklu máli í þessu samhengi. Það eru fyrir hendi tækifæri og aðstæður til að gera vel, á sanngjarnan hátt, við starfsmenn, til að halda í og laða þá til starfa.“
Áhugi á innkirtlalækningum og lýðheilsu
Guðni segist upphaflega hafa valið sér sérnám í innkirtlalækningum meðal annars vegna þess að í þeim sé oftast hægt að staðfesta eða útiloka tiltekna sjúkdómsgreiningu með blóðrannsókn. „Í mörgum tilvikum má að minnsta sjá hvort vandamálið er vegna of mikils eða of lítils magns af tilteknu hormóni. Á þann hátt getur greiningin í mörgum tilfellum verið skýrari og auðsóttari en í öðrum sérgreinum. Ég komst þó fljótlega að því að þetta er ekki svona einfalt! Það sem heillaði mig líka við innkirtlalækningar er hversu fjölbreytileg vandamálin eru. Innkirtlar eru staðsettir vítt og breitt um líkamann og kallar sérgreinin því á nána samvinnu við aðrar sérgreinar eins og heila- og taugaskurðlækna, kviðarholsskurðlækna, hjartalækna og háls-, nef- og eyrnalækna. Ég hef síðan áhuga á flestöllu sem tengist lyflækningum og innkirtlasjúkdómum en það sem ég hef helst sérhæft mig í í seinni tíð eru algeng og oft ógreind lýðheilsuvandamál eins og sykursýki týpa 2, beinþynning og jafnvel testósterónskortur. Þetta eru eins og sagði algeng vandamál þar sem rétt greining og meðferð getur skipt höfuðmáli fyrir stóran hóp fólks. Þetta kemur einnig inn á heilsuhagfræði, forvarnir, lífsstíl og hreyfingu sem ég hef einnig mikinn áhuga á. Ég hef lagt mig eftir og brenn fyrir að auka þekkingu og vitund bæði almennings og heilbrigðisstarfsfólks í þessum efnum því það er þjóðhaglega hagkvæmara að meðhöndla snemma og rétt en að glíma við kostnaðarsamar og íþyngjandi afleiðingar síðar þegar vandamálið er seint eða ekki greint.“
Af hverju Akureyri?
„Ég er reyndar alinn upp á mölinni í Reykjavík og ættaður að ¾ hluta að vestan og af Ströndum og að ¼ úr Haugasundi í Vestur-Noregi. Það lá því ekki beinast við að vinna á Akureyri. Ég hef reynt að festast ekki og eiga á hættu að staðna á einum vinnustað og hef því flakkað aðeins á milli. Þar fyrir utan fannst mér kominn tími á nýja áskorun og að þróast áfram í starfi eftir rúm átta ár á Landspítala. Ég hef alltaf kunnað mig vel á Akureyri og síðan hefur konan mín, Dalvíkingurinn, ósjaldan dregið mig norður. Ég hef því núorðið nokkuð sterka tengingu við Norðurlandið. Akureyri er fallegur bær og fjölskylduvænn með góða útivistar- og atvinnumöguleika sem hefur alla burði til að verða öflug lítil borg með kjöraðstæður til að laða að einnig sérhæft starfsfólk sem getur eflt samfélagið enn frekar. Ég bý þó enn í Reykjavík en kem norður í hverri viku og eyði því nokkrum klukkutímum í hverri viku í flugvél eða á flugvelli. Í dag er auðveldara en áður að stunda fjarvinnu að heiman en einnig má vel hugsa sér fyrir suma að vinna hlutastarf hér og fylla upp í dagskrána annars staðar. Að því sögðu held ég að það væri samt vænlegast fyrir Sjúkrahúsið að fá hingað góðan kjarna lyflækna og annars sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem vill búa hér og festa rætur. Það fylgja því líka fríðindi að koma hingað og losna við umferðina og asann í Reykjavík.“
Bakgrunnur
Guðni útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 2000 og stundaði framhaldsnám í innkirtlalækningum við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg á árunum 2005–2010. Hann hlaut sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum árið 2007 og í innkirtlasjúkdómum árið 2009.
Guðni starfaði á Sjúkrahúsinu á Akranesi frá 2010–2017 og var yfirlæknir á lyflækningadeild HVE á árunum 2014–2017. Hann hefur jafnframt starfað á innkirtladeild Landspítalans frá 2017 og sinnt hlutastarfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá hefur hann áður starfað á eigin stofu í Læknasetrinu.
Auk klínískrar reynslu er Guðni með diplómu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og sat í stjórn Læknaráðs Landspítala 2018–2020. Hann hefur unnið að rannsóknum á áhrifum höfuðáverka á starfsemi heiladinguls og hefur sérstakan áhuga á sykursýki af tegund 2, testósterónskorti og beinasjúkdómum.