Líf og fjör á Starfamessu
29. febrúar 2024
SAk stimplaði sig enn og aftur inn á Starfamessu sem fram fór í Háskólanum á Akureyri í dag. Von var á fjölmenni úr grunnskólum á svæðinu en svo voru framhaldsskólanemar og háskólastúdentar einnig velkomnir.
Að þessu sinni kynntu 8 starfstéttir störf sín við SAk: Heilbrigðisgagnafræðingar, hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, lífeindafræðingar, ljósmæður, læknar, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar.
Það var margt hægt að prófa og skoða á bás SAk, meðal annars var hægt að taka á móti barni, sjá röntgenmyndir af fóstri, spreyta sig á latneskum heitum, skoða í smásjá, hlusta með alvöru hlustunarpípu, láta vöðvana hristast, fræðast um barkaþræðingu og læra að tjá sig um tilfinningar og svo margt, margt fleira.
Starfsfólk SAk stóð vaktina frá kl. 9 – 13 og það má með sanni segja að vakinn hafi verið áhugi ungmenna á störfum við SAk. Hver veit nema að þetta sé framtíðar starfsfólk SAk?