Fara beint í efnið

Kynntu fjölbreytt störf hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa við SAk

21. nóvember 2023

Í síðustu viku var blásið til kynningar á störfum hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa og var kynningin haldin í Háskólanum á Akureyri. Kynningin var opin hjúkrunarfræðinemum á 3ja ári ásamt iðjuþjálfunarfræðinemum.

Komdu í lið með okkur!

Á kynningunni sagði Erla Salome Ólafsdóttir hjúkrunarfræðinemi frá starfsnámi sínu á SAk og þegar hún kom til starfa á lyflækningadeild síðasta sumar. Ráðningaferli Erlu var mjög vel skipulagt og hún átti fundi með langflestum deildarstjórum. Einnig fékk hún góðan stuðning frá mannauðsdeild. Ásta Guðrún Eydal, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild, sagði frá sinni vinnu á deildinni og líðan hennar fyrstu dagana í starfi. Hún hafði sérstaklega orð á því hversu vel hefði verið tekið á móti henni sem nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingi. Að lokum tók Kristín Brynja Árnadóttir, iðjuþjálfi á Kristnesspítala, til máls og sagði frá fjölbreyttu og áhugaverðu starfi iðjuþjálfa á spítalanum þar sem fara fram endurhæfinga og öldrunarlækningar sjúkrahússins.

Um 50 áhugasamir nemendur í heilbrigðisvísindum mættu á kynninguna en henni lauk með góðri yfirferð Kristjönu Kristjánsdóttur, deildarstjóra mannauðsdeildar og mannauðsráðgjafa um fjölbreytt störf á sjúkrahúsinu, kjör hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa á SAk svo og tækifærin sem standa hjúkrunarfræðingum og iðjuþjálfum til boða á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Kynningin er hluti af átaksverkefninu Komdu í lið með okkur!

Skoða myndböndin í herferðinni hér.

Mynd frá kynningu í HA 15.11.2023