Jólakveðja frá framkvæmdastjórn
22. desember 2023
Senn líður að jólum og lokum þessa árs. Þrátt fyrir álag og oft á tíðum erfiðar aðstæður á vinnustaðnum sem og í heilbrigðiskerfinu öllu þá er gott að staldra við og hugsa til allra þeirra afreka sem við náum á degi hverjum og vera stolt af því. Það er ekki lítið. Framkvæmdastjórn er gríðarlega stolt af starfsfólki SAk, þrautseigju, metnaði og fagmennsku þeirra.
Árið hefur verið viðburðarríkt. Mikil mannekla hefur stýrt starfseminni að stórum hluta og er það stór áskorun að tryggja næga mönnun, ekki bara á SAk, heldur á heilbrigðisstofnunum í öllum heiminum. Þetta veldur álagi á starfsfólk, þreytu, auknum veikindum og eflaust vonleysi á stundum. Starfsemin hefur aukist á langflestum sviðum sjúkrahússins hvort sem horft er til koma á bráðamóttöku, fjölda ferðamanna, aukinna koma á dag- og göngudeildir eða innlagna. Alls staðar er aukning í starfsemistölum. Einnig er aukinn fjöldi aldraðra sem þarf að vera á SAk vegna þessa að úrræði á svæðinu eru ekki nægilega mikil fyrir þennan hóp. Þetta er ekki ákjósanleg staða, hvorki fyrir þann aldraða né heilbrigðisstarfsfólk.
Það er að vísu svo í þessu dimmasta skammdegi sem samfélagið okkar þjappar sér enn betur saman og hlúir hvert að öðru. Við erum heppin hér á Sjúkrahúsinu á Akureyri að búa svo vel að eiga reynt og hjartahlýtt samstarfsfólk og saman gerum við daglega okkar besta. Við erum þess fullviss að í sameiningu munum við leysa þau verkefni og áskoranir sem bíða okkar á næsta ári því með viljann að vopni þá tekst margt. Það bætir margt að horfa full bjartsýni og með tilhlökkun til nýs árs með nýjum áskorunum.
Sjúkrahúsið á Akureyri óskar ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári með hjartans þökkum fyrir samhuginn, samvinnuna og samstöðuna á árinu sem er að líða og er það einlæg ósk okkar að jólin og áramótin verði ykkur og fjölskyldum ykkar ánægjuleg.
f.h. framkvæmdastjórnar
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri