Jákvæður árangur af verkefninu „Hreyfum okkur“
25. janúar 2026
Verkefnið Hreyfum okkur, sem miðar að því að hvetja sjúklinga til aukinnar hreyfingar meðan á innlögn stendur, er þegar farið að skila mælanlegum árangri.

Hreyfihornin eru vinsæl meðal sjúklinga. Kristveig Atladóttir og Jana Björg Róbertsdóttir, sjúkraþjálfarar, hluti þeirra sem þátt í verkefninu "Hreyfum okkur"
Ný könnun sýnir að fleiri sjúklingar klæðast nú eigin fötum yfir daginn og notkun á hreyfihornum deildanna hefur aukist, sem bendir til jákvæðrar þróunar í átt að meiri virkni og sjálfstæði sjúklinga.
„Þetta eru mjög hvetjandi niðurstöður sem sýna okkur að einfaldar aðgerðir og hvatning getur haft raunveruleg áhrif,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir, yfirsjúkraþjálfari á SAk.
Nauðsynlegt að halda áfram
Næstu skref í verkefninu snúast fyrst og fremst að því að virkja fleiri fagstéttir, fylgjast með þróuninni og fjölga áminningum með sýnilegum hætti bæði fyrir starfsfólk, sem og sjúklinga og aðstandendur þeirra. Fjölga á veggspjöldum og plaggötum og minna á verkefnið á upplýsingaskjáum sjúkrahússins „Hreyfing á meðan á innlögn stendur er sameiginlegt verkefni okkar allra,“ segir Ragnhildur. „Með auknum sýnileika og einföldum verkfærum getum við enn frekar stutt við bata, líðan og sjálfstæði sjúklinga.“