Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Jákvæð rekstrarniðurstaða SAk árið 2024 þrátt fyrir áskoranir

4. júní 2025

Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) skilaði jákvæðri niðurstöðu upp á 189 milljónir króna árið 2024, þrátt fyrir uppsafnaðan halla við upphaf ársins. Þetta kom fram í erindi fjármálastjóra á ársfundi sjúkrahússins þann 27. maí.

Fram kom að tekjur sjúkrahússins hefðu aukist um tæplega 1.300 milljónir króna á milli ára, eða um 9,7%. Megnið af tekjuaukningunni kom í gegnum fjárveitingar og millifærslur milli fjárlagaliða, en þar vógu þyngst úthlutanir úr varasjóði, framlag vegna niðurfellingar samninga við SÍ, sérstök fjármögnun vegna verkefna á borð við liðskiptaaðgerðir, stofnun Akureyrarklíníkurinnar, endurheimt starfsmanna og þjónustutengda fjármögnun.

Þjónustutengd fjármögnun skilar árangri
SAk fékk í annað sinn úthlutun úr svonefndum umbunarpotti vegna þjónustutengdrar fjármögnunar. Framleiðsla sjúkrahússins var um 4% yfir áætlun og skilaði það rúmlega 200 milljónum króna úr sameiginlegum umbunarpotti.

Miklar áskoranir vegna langtímaveikinda
Langtímaveikindi hafa aukist verulega á undanförnum árum og eru nú að jafnaði 34 stöðugildi í langtímaveikindum – sem jafngildir heilli deild í fjarveru hverju sinni. Kostnaður vegna langtímaveikinda var 516 milljónir króna árið 2024 og nemur það nú um 4,8% af heildarlaunakostnaði SAk. Fjármálastjóri lagði áherslu á að bregðast þyrfti markvisst við þessari þróun og nýta þau úrræði sem þegar hafa verið innleidd til að snúa henni við.

Nauðsyn trausts fjármagnsgrunns
Forstjóri SAk, Hildigunnur Svavarsdóttir, fjallaði í ræðu sinni um þann árangur sem náðst hefur með samstilltu átaki starfsfólks, stjórnenda og heilbrigðisráðuneytisins. Hún lagði þó áherslu á að fjármagnsgrunnur sjúkrahússins verði að vera traustari og stöðugri til framtíðar: „Við horfum í hverja krónu og hagræðum þar sem við getum – en ef við ætlum að viðhalda og þróa þjónustu af þeim gæðum sem samfélagið á rétt á, þarf fjármögnunin að vera stöðug og skýr.“