Innkirtlamóttaka SAk fagnar 10 ára afmæli
7. apríl 2025
Á innkirtlamóttökunni er lögð áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu, hvatningu í lífsstíl, meðferðarstýringu og árlegt eftirlit til að fyrirbyggja fylgikvilla.

Innkirtlamóttaka SAk fagnar 10 ára afmæli
Frá upphafi hefur móttakan verið mikilvæg þjónusta fyrir einstaklinga með sykursýki og áður fyrir þau sem takast á við aðra innkirtlasjúkdóma á starfssvæði SAk. Hefur innkirtlamóttakan skipt talsverðu máli við að veita nærþjónustu og samfellu í meðferð. Innkirtlamóttaka SAk er innan Göngudeildar lyflækninga sem áður var Almenn göngudeild.
Í upphafi samanstóð teymið af hjúkrunarfræðingunum Árúnu K. Sigurðardóttur og Evu Hilmarsdóttur, innkirtlasérfræðingnum Finnboga Karlssyni og næringarfræðingnum Borghildi Sigurbergsdóttur. Í dag sinna Eva Hilmarsdóttir og Emilía Fönn Andradóttir hjúkrunarfræðingar móttökunni.
Þróun starfseminnar
Í nokkur ár eftir stofnun var starfrækt formlegt samstarf við innkirtlasérfræðinga Landspítala. Þá komu sérfræðingar tvisvar í mánuði norður, en með tímanum færðist þjónustan yfir í fjarviðtöl og samráðsfundi. Samningurinn rann út í apríl 2023 og unnið er að frekari aðkomu innkirtlasérfræðinga. Í dag er þetta því hjúkrunarmóttaka þar sem Eva og Emilía skipta með sér einu stöðugildi. Á móttökuna koma einstaklingar með sykursýki, sem þarfnast insúlínmeðferðar eða hafa flókna sjúkdómsmynd, einnig sinna hjúkrunarfræðingar ráðgjöf á aðrar deildir SAk og heilbrigðisstofnanir. Um 130 einstaklingar nýta nú þjónustu innkirtlamóttökunnar.
Einstaklingsmiðuð þjónusta
Á innkirtlamóttökunni er lögð áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu, hvatningu í lífsstíl, meðferðarstýringu og árlegt eftirlit til að fyrirbyggja fylgikvilla. Aðstandendur eru boðnir sérstaklega velkomnir með, enda skiptir stuðningsnet fjölskyldu og vina miklu máli í daglegu lífi með langvinnan sjúkdóm. Sú þjónusta sem hefur verið í boði hefur sparað fjölda ferðalaga suður og létt verulega undir með sjúklingum og fjölskyldum þeirra.