Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Hollvinir SAk afhenda hryggsjá

6. júní 2023

Stærsta verkefni Hollvinasamtaka SAk til þessa lokið á 10 ára afmæli samtakanna. Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) afhentu Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) í dag með formlegum hætti svonefnda hryggsjá (Brain-lab). Um er að ræða eins konar leiðsögutæki fyrir stórar aðgerðir á hryggsúlunni. Tækið var tekið í notkun um áramótin en afhent með formlegum hætti nú. Það kostaði 40 milljónir króna.

Freyr Gauti Sigmundsson og hryggsjáin

Á SAk eru framkvæmdar stórar aðgerðir á hrygg og hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greitt kostnað við komu Dr. Freys Gauta Sigmundssonar, bæklunarlæknis og yfirlæknis á Örebro háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð, til að gera þessar aðgerðir á SAk í samstarfi við Bjarka Karlsson, yfirlækni á SAk og sérhæft skurðstofuteymi. Það fyrirkomulag sparar ferðir og uppihald sjúklinga og aðstandenda þeirra sem annars yrðu að fara til útlanda þeirra erinda.

Hryggsjáin breytir öllu

„Ný hryggsjá á Akureyri breytir öllu. Hún gerir aðgerðirnar öruggari, einfaldari og fljótlegri,“ segir Freyr Gauti hryggjarskurðlæknir í viðtali sem birtist í 4. tölublaði Læknablaðsins í apríl sl. en þar er fjallað ítarlega um hryggsjána.

Freyr Gauti flýgur þrisvar til fjórum sinnum á ári á heimaslóðirnar á Akureyri og sker með Bjarka Karlssyni og sérhæfðu skurðstofuteymi hans sjúklinga með hryggjarvanda, sem áður þurfti að skera erlendis.

„Mjög hæft starfsfólk er á skurðstofum og legudeild spítalans. Við þurfum góða svæfingalækna og góða gjörgæslu fyrir þessa sjúklinga. Kosturinn við Akureyri er hvað mönnunin á skurðstofunni er góð. Þar hefur fólk unnið lengi. Við höfum byggt upp teymið. Hollvinir hafa reynst okkur vel. Keypt hryggjarborð, röntgentæki og smásjá. Við höfum smám saman, í yfir áratug, byggt upp. Allir vita hvað þeir eru að gera og við höfum ekki þurft meira bakland fyrir þessar aðgerðir,“ segir Freyr Gauti í viðtalinu í Læknablaðinu.

Þurfa ekki til útlanda

Freyr Gauti segir ennfremur í fyrrnefndu viðtali að flóknar skurðaðgerðir á hrygg sé hægt að gera án hryggsjárinnar en óvissunni sé eytt með henni.

„Hún gerir aðgerðina bæði öruggari og fljótlegri. Þetta eru sömu aðgerðir og ég geri í Svíþjóð í daglegri vinnu. Geri við hryggskekkju en það eru ekki margir sjúklingar á Íslandi sem þurfa slíka meðferð. Ég hef stundum tekið þá til Svíþjóðar en stundum gert aðgerðir á Akureyri. Eftir að við fengum þessa hryggsjá er engin þörf á að flytja þá út.“

Þakklæti, stolt og ánægja

„Við erum afskaplega þakklát öllum þeim fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum sem studdu við bakið á okkur í þessari söfnun,“ segir Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hollvinasamtaka SAk.

Stjórnin ákvað sl. haust að ráðast í þessa stærstu söfnun sína frá upphafi, bæði til að fagna 10 ára afmælinu á þessu ári og minnast stofnanda samtakanna, Stefáns heitins Gunnlaugssonar, með viðeigandi hætti . „Söfnunin gekk vonum framar og þar eiga hollvinirnir sjálfir stóran þátt með framlagi sínu. Við afhendum þetta stórkostlega tæki hér í dag með miklu stolti og ánægju og óskum Sjúkrahúsinu á Akureyri áframhaldandi velfarnaðar,“ segir formaðurinn.

Á myndinni má sjá Dr. Frey Gauta og hryggsjánna.