Hermun á rýmum fyrir nýbyggingu við SAk
13. desember 2024
Rýmin sett upp í raunstærð til prófunar.
Í síðustu viku fóru fram hermiprófanir á rýmum vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk). Prófanirnar tóku meðal annars til sjúkrastofu, salernis á sjúkrastofu, lyfjaherbergis og skolherbergis. Hugtakið „hermun“ er íslensk þýðing á enska orðinu simulation og er notað um þessa aðferð.
Rýmin voru sett upp í raunstærð með skilrúmum, tækjum og tólum í gamla bókasafninu og fyrrverandi kennslustofu á 2. hæð. Starfsfólk var boðað til að taka þátt í hermiprófunum þar sem það prófaði verkferla og gaf ábendingar. Markmiðið er að tryggja að rýmin henti þörfum starfsfólks áður en lengra er haldið í hönnunarferlinu.
„Fyrir okkur er gríðarlega mikilvægt að prófa aðstæður eins raunverulega og mögulegt er. Skoðanir starfsfólks skipta öllu máli, enda eru það þau sem munu nýta rýmin mest,“ segir Gunnar Líndal Sigurðsson, verkefnastjóri nýbyggingarinnar á sviði reksturs og klínískrar stoðþjónustu.
Fyrsta skóflustunga fyrir nýbygginguna er áætluð strax á næsta ári.