Heimsókn þingmanna Norðausturkjördæmis á SAk
8. október 2024
Fengu kynningu á rekstrarstöðu og hlutverki SAk sem kennslu- og varasjúkrahús.
Þingmenn Norðausturkjördæmis komu á opinn fund starfsfólks SAk í kjördæmaviku Alþingis í síðustu viku. Þar fengu þeir kynningu á rekstrarstöðu SAk og fjárlögum til sjúkrahússins 2025. Þá var hlutverk SAk sem kennslu- og varasjúkrahús rætt og greinagóð kynning á nýbyggingu við SAk.
„Það er okkur afar mikilvægt að halda uppi góðum og tíðum samtölum við þingmennina okkar og það hef ég haft í gegnum tíðina. Þau eru mjög vel upplýst um erfiða fjárhagsstöðu sjúkrahússins en gera sér einnig grein fyrir því – eins og við – hversu mikilvægur hornsteinn sjúkrahúsið er fyrir landið allt,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.
Hagræðingar í heilbrigðiskerfinu
Það spunnust áhugaverðar umræður um hvernig væri hægt að hagræða í heilbrigðiskerfinu og auka hlut SAk til að létta á álagi á Landsspítala.
„Það gleymist stundum að líta á heilbrigðiskerfið í heild sinni og að Sjúkrahúsið á Akureyri geti létt undir með Landspítala að einhverju leyti. Með betra aðgengi að sérfræðingum á svæðinu þurfum við að senda færri suður í meðferðir eða aðgerðir,“ segir Hildigunnur.
Tíðar ferðir til Reykjavíkur til að sækja meðferðir
Dr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir, dósent við HA, sjúkraþjálfari á SAk og sérfræðingur í lungnasjúkraþjálfun steig fram á fundinum og ræddi mikilvægi þess að lungnasjúklingar fái þjónustu í heimabyggð þar sem þessi hópur ætti enn erfiðara með að ferðast suður til að sækja sér meðferð.
„Þrátt fyrir erfiða rekstrarstöðu Sjúkrahússins á Akureyri sé ég mikilvægi tilvistar þess og lít á það sem eina af okkar mikilvægustu heilbrigðisstofnunum á landsvísu sem ber að styrkja enn frekar. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu ber sjúkrahúsinu að veita þjónustu í nær öllum sérgreinum lækninga en því miður hefur þessi þjónusta verið að dragast saman. Við heyrðum skýrt þær áhyggjur starfsfólks SAk. Þingmenn Norðausturkjördæmis standa þétt að baki Sjúkrahúsinu á Akureyri og við áttum gott samtal við starfsfólkið sem var óhrætt að koma fram með hugmyndir að hagræðingu. Við getum öll verið sammála um það að það nær engri átt að senda alla sjúklinga suður í meðferð þegar hægt væri að flytja einn lækni norður til að sinna þessum hópi í sinni heimabyggð. Það eru einmitt mikil tækifæri fólgin í því að veita heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og þessi þjónusta gæti létt umtalsvert álagið á Landspítala. Við munum gera allt í okkar valdi til að standa vörð um lögbundið hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri,“ sagði Ingibjörg Isaksen eftir fundinn.