Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Forsetahjónin í opinbera heimsókn á SAk

29. ágúst 2023

Laugardaginn 26. ágúst komu forsetahjónin hr. Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid í opinbera heimsókn á Sjúkrahúsið á Akureyri. Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, ásamt Sigurði Einari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra lækninga og Ragnheiði Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra lyflækningasviðs, tóku á móti forsetahjónunum og föruneyti og kynntu starfsemi SAk.

Forsetahjón í opinberri heimsókn á SAk

Fyrst var ferðinni heitið á rannsókn þar sem Inga Stella Pétursdóttir forstöðulífeindafræðingur sýndi þeim ferðalag blóðsýna. Þá var komið að því að heimsækja sjúklinga á blóðskilun en þar tók Sólveig Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur á móti hópnum. Því næst var farið á „stofugang“ á skurðlækningadeild þar sem Hilda Hólm Árnadóttir forstöðuhjúkrunarfræðingur fræddi gestina um dagleg verkefni og áskoranir vegna fjölda ferðamanna á deildinni. Forsetahjónin heilsuðu upp á sjúklinga sem margir höfðu orð á því að það að fá heimsókn frá forsetahjónum Íslands væri nú saga til næsta bæjar. Að lokum var farið niður í eldhús þar sem Hanna Fríður Stefánsdóttir matartæknir leiddi þau í gegnum starfsstöðina uns þau snæddu í matsalnum. Þar spunnust skemmtileg samtöl við starfsfólk.

„Við erum svakalega ánægð með að hafa fengið forsetahjónin loksins í opinbera heimsókn á sjúkrahúsið okkar. Sjúkrahúsið á Akureyri er stærsti vinnustaðurinn á svæðinu fyrir utan Akureyrarbæ og gríðarlega mikilvægt sem varasjúkrahús og mótvægi við Landspítalann á höfuðborgarsvæðinu. Við erum stolt af því starfsfólki sem vinnur hér gríðarlega góða og faglega vinnu og við viljum einmitt setja mannauðinn okkar í verðskuldað sviðsljós,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk um heimsókn forsetahjónanna.

Forsetahjónin voru mjög áhugasöm og spurðu mikið út í starfsemina. Hópurinn var svo kvaddur með gjöfum. Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk færði forsetahjónunum bókina Sögu hjúkrunar á Íslandi á 20. öld eftir Margréti Guðmundsdóttur ásamt forlátum sokkapörum merkta sjúkrahúsinu – vitandi af sokkaáhuga forsetans.

Sjúkrahúsið á Akureyri þakkar forsetahjónunum hjartanlega fyrir komuna. Meðfylgjandi eru myndir frá Daníel Starrasyni ljósmyndara.

Forsetahjón heimsækja SAk
Forsetahjón heimsækja SAk
Forsetahjón heimsækja SAk
Forsetahjón heimsækja SAk
Forsetahjón heimsækja SAk