Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Flutningur sjúklinga á deildir HSN

9. maí 2023

​Á síðustu mánuðum hefur öldruðum einstaklingum sem liggja inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og bíða eftir hjúkrunarrými fjölgað og að meðaltali eru milli 20-25% bráðarýma SAk upptekin af þessum sökum. Rúmanýting á bráðalegudeildum SAk er oft yfir 100% og talið er ásættanlegt að um 5% rýma á sjúkrahúsum séu nýtt af einstaklingum sem bíða eftir úrræði á hjúkrunarheimili.

SAk merkið

Á síðustu mánuðum hefur öldruðum einstaklingum sem liggja inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og bíða eftir hjúkrunarrými fjölgað og að meðaltali eru milli 20-25% bráðarýma SAk upptekin af þessum sökum. Rúmanýting á bráðalegudeildum SAk er oft yfir 100% og talið er ásættanlegt að um 5% rýma á sjúkrahúsum séu nýtt af einstaklingum sem bíða eftir úrræði á hjúkrunarheimili.  Mikið álag hefur verið á bráðalegudeildum SAk bæði vegna fjölda sjúklinga og skorts á heilbrigðisstarfsfólki. Stjórnendur SAk hafa í samvinnu við stjórnvöld og stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) leitað lausna á vandanum en búast má við enn fleiri sjúklingum á SAk í sumar þegar ferðamannastraumurinn eykst og metfjöldi skemmtiferðaskipa leggja að höfn. 

Vegna rýmisvanda hefur geta SAk til að taka við bráðveikum sjúklingum minnkað og hafa stjórnendur, í samráði við stjórnendur HSN og heilbrigðisráðuneytið, brugðið á það ráð að senda aldraða einstaklinga sem bíða eftir hjúkrunarrými tímabundið í laus pláss á hjúkrunarheimili og hjúkrunardeildir í nærsveitum okkur .  Stjórnendur SAk gera sér grein fyrir þeim óþægindum sem það getur valdið, bæði einstaklingum og aðstandendum þeirra, en um tímabundna lausn er að ræða svo betur sé hægt að sinna bráðveikum á SAk. Auk þsess má geta að bráðadeildir sjúkrahúsa eru ekki góður staður fyrir aldraðan einstakling að bíða á og við langtímadvöl aldraðra á sjúkrahúsi aukast líkur á sýkingum, óráði, byltum, félagslegri einangrun og fleiri vandamálum með tilheyrandi álagi fyrir hinn aldraða, aðstandendur hans og starfsfólk sjúkrahússins.  Stjórnendur SAk vonast til þess að fundin verði lausn á skorti á hjúkrunarrýmum á Akureyri sem allra fyrst svo betur sé hægt að veita rétta þjónustu á réttum stað.