Endurskoðun og þróun á þjónustu dag- og göngudeildar geðþjónustu SAk
9. febrúar 2024
Á síðustu vikum hefur verið unnið að uppbyggingu og endurskipulagningu á þjónustu dag- og göngudeildar geðþjónustu SAk. Umbæturnar voru vandaðar og vel ígrundaðar og kröfðust m.a. tímabundinnar skerðingar á þjónustunni.
„Það hefur verið ánægjulegt að upplifa kraftinn í starfsfólki og sjá hversu miklar umbætur er hægt að ráðast í á skömmum tíma sem mun skila sér í skýrara verklagi og bættri þjónustu til framtíðar,“ segir Erla Björnsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs.
Þó svo að umbótahópar séu enn að störfum eru umbætur nú þegar sýnilegar svo sem mótun nýrra verkferla, aukin þverfagleg samvinna og breyting á mönnun. Starfsemi dag – og göngudeildar geðþjónustu SAk mun smá saman komast á fullt skrið miðað við mönnun deildarinnar.
„Við höfum trú á teyminu sem vinnur að þessu verkefni og fela breytingarnar í sér ýmis tækifæri til uppbyggingar og þátttöku í spennandi verkefnum í samvinnu við aðrar fagstéttir. Því tengdu þá erum við að auglýsa eftir félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfa og hjúkrunarfræðingum í bráðateymi geðþjónustu, en það er nýtt starf til að efla eftirfylgd bráðamála innan geðþjónustu. Störfin eru tilvalin fyrir meðferðaraðila sem vilja breyta til í starfi og takast á við nýjar áskoranir í lærdómsríku starfsumhverfi,“ segir Erla Björnsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs.